Kallar eftir „vopnahléi á landsvísu“

Dina Boluarte, forseti Perú, á blaðamannafundinum í dag.
Dina Boluarte, forseti Perú, á blaðamannafundinum í dag. AFP/Cris Bouroncle

Dina Boluarte, forseti Perú, kallaði eftir „vopnahléi á landsvísu“ til þess að binda enda á óeirðir sem hafa staðið yfir í landinu frá því í desember er fyrr­ver­andi for­seta lands­ins, Pedro Castillo, var steypt af stóli. 

Stuðnings­menn Castillo krefjast nýrra kosn­inga og að Bolu­arte, verði vikið frá. 46 hafa látið lífið frá því óeirðirnar hófust. 

„Ég hvet mitt kæra land til vopnahlés á landsvísu til þess hægt verði að efna til viðræðna, lagfæra stefnu hvers svæðis og þróa bæina okkar. Ég mun ekki þreytast á að kalla eftir viðræðum, friði og samstöðu,“ sagði Boluarte á blaðamannafundi í dag. 

Þá baðst hún nokkrum sinnum afsökunar á mannfallinu sem hefur orðið í óeirðunum. Hún sagði dauðsföllin særa hana sem „konu, móður og dóttur“. Forsetinn sagði að neyðarástand ríki nú í Perú.

46 hafa látið lífið frá því óeirðirnar hófust.
46 hafa látið lífið frá því óeirðirnar hófust. AFP/Ernesto Benavides

Leysi ekki vandann að segja af sér

Boluarte sagðist ekki ætla að vera áfram við völd eftir næstu kosningar í Perú en þær verða í apríl árið 2024. Forsetinn sagðist þó binda vonir við að þingið myndi samþykkja að kosið yrði fyrr. 

Spurð hvort hún hefði íhugað að segja af sér sagði Boluarte að það myndi ekki leysa vandann. 

Þá sagði hún að óeirðirnar stöfuðu af ábyrgðaleysi Castillo, en Boluarte var varaforseti Castillo á meðan hann gegndi embætti. 

Mótmælendur kalla eftir afsögn forsetans.
Mótmælendur kalla eftir afsögn forsetans. AFP/Juan Carlos Cisneros
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert