Leyniskjöl fundust hjá Pence

Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP/Wade Vandervort

Leyniskjöl fundust við leit á heimili Mike Pence, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, í síðustu viku. Pence mun hafa afhent bandarísku alríkislögreglunni skjölin að sögn CNN-fréttastofunnar.

Samkvæmt heimildum CNN hafa FBI og þjóðaröryggisdeild bandaríska dómsmálaráðuneytisins hafið rannsókn á því um hvaða skjöl sé að ræða og hvernig þau hafi endað á heimili Pence í Indiana-ríki. 

Lögfræðingur á vegum Pence mun hafa gert húsleit að beiðni Pence í kjölfar þess að skjöl sem merkt voru leynileg fundust á skrifstofu og heimili Joes Bidens Bandaríkjaforseta. Pence hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi ekki haft nein leynileg gögn undir höndum eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið. 

Pence ákvað þó að biðja lögfræðing sinn um að leita til þess að vera fullviss, og fór lögfræðingurinn yfir fjóra kassa af gögnum sem geymdir voru á heimili Pence. Þar fundust um tólf skjöl sem merkt voru sem leynileg. Hafði lögfræðingurinn strax samband við Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna, sem hefur yfirumsjón með gögnum frá tíð fyrri forseta. 

Greg Jacob, einn af lögfræðingum Pence, sagði í bréfi til Þjóðskjalasafnsins að varaforsetinn hefði verið grunlaus um að hann hefði viðkvæm eða leynileg skjöl í sínum fórum. „Pence varaforseti skilur hve mikilvægt það er að verja viðkvæmar og leynilegar upplýsingar og er boðinn og búinn til að vinna með þjóðskjalasafninu og hverri viðeigandi rannsókn.“ 

Bæði Joe Biden og Donald Trump, fyrirrennari Bidens, sæta nú rannsókn sérstaks saksóknara vegna meðferðar sinnar á opinberum skjölum. 

mbl.is