Skaut sjö samstarfsmenn til bana

Lögreglan að störfum í Half Moon Bay.
Lögreglan að störfum í Half Moon Bay. AFP/Susana Bates

Karlmaður á sjötugsaldri skaut sjö til bana og særði einn áður en hann var handtekinn í bandaríska ríkinu Kaliforníu í gær, aðeins tveimur dögum eftir að önnur skotárás var gerð í ríkinu þar sem ellefu voru drepnir á skemmtistað.

Maðurinn starfar á búgarði og þeir sem hann skaut til bana voru samstarfsmenn hans.

Árásin í gær var gerð á tveimur stöðum í hafnarborginni Half Moon Bay, um 50 kílómetrum suður af borginni San Francisco. Annars vegar á sveppabúgarði og hins vegar hjá vöruflutningafyrirtæki í nágrenninu. 

Árásarmaðurinn, hinn 67 ára Chunli Zhao, er í haldi lögreglunnar. Fréttamenn náðu myndum af því þegar hann gaf sig fram við lögregluna um tveimur klukkustundum eftir árásirnar.

AFP/Justin Sullivan
mbl.is