Átta saknað eftir að flutningaskip sökk

Suðurkóreska strandgæslan að störfum.
Suðurkóreska strandgæslan að störfum. AFP

Strandgæslurnar í Japan og Suður-Kóreu leita að átta manns úr áhöfn flutningaskips sem sökk á milli landanna tveggja. Búið er að bjarga 14 manns.

„14 hefur verið bjargað,“ sagði talsmaður japönsku strandgæslunnar við AFP. „Við vitum ekki enn um ástand þeirra eða þjóðerni,“ bætti hann við.

Hann sagði að suðurkóreska strandgæslan hafi bjargað sex þeirra.

Skipið nefnist Jin Tian og er 6.651 tonn. Það er skráð í Hong Kong.

Japanska strandgæslan tekur þátt í leitinni.
Japanska strandgæslan tekur þátt í leitinni. AFP

Ellefu voru meðvitundarlausir þegar þeim var bjargað.

Neyðarkall barst seint í gærkvöldi og var staðsetningin um 110 kílómetrum vestur af eyjunni Danjo í suðvesturhluta Japans.

Þrjú skip í einkaeigu voru á sjó á nærliggjandi svæði og aðstoðuðu við að bjarga þó nokkrum úr áhöfninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert