Fjórðungur telur helförina vera uppspuna

„Við munum,“ stendur nú fyrir framan Reichstag bygginguna í Berlín …
„Við munum,“ stendur nú fyrir framan Reichstag bygginguna í Berlín vegna alþjóðlegs minningardags um Helförina sem er á föstudaginn. Mynd úr safni. AFP

Ný rannsókn sem birt var í Hollandi í dag sýnir að fjórðungur fullorðinna undir fertugt þar í landi trúa að helförin, það er kerfisbundin útrýming gyðinga af völdum Nasista í seinni heimsstyrjöldinni, sé uppspuni eða að tala látinna sé ekki jafn há og talið er. 

Rannsóknin var gerð af hagsmunahópi gyðinga og sýnir að um tólf prósent allra í Hollandi deila sömu skoðun um helförina. Rannsóknin sýnir að um 23 prósent þeirra sem fæddir eru á milli 1980 og 2010 í Hollandi telja að mun færri en sex milljónir gyðinga hafi verið teknir af lífi í seinni heimsstyrjöldinni eða að helförin sé uppspuni frá rótum. 

Greg Schneider sem fór fyrir rannsókninni sagði í samtali við fréttastofu AFP að þessar tölur í Hollandi væru mun hærri en í öðrum löndum þar sem þau höfðu gert samskonar rannsóknir. Að mati rannsóknarhópsins sýnir þetta fram á vanþekkingu Hollendinga á mikilvægum staðreyndum úr heimssögunni og tengingu Hollands við Helförina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert