Kennarinn sem var skotinn kærir skólann

Kennslukonan sem varð fyrir skotárás frá nemanda sínum er 25 …
Kennslukonan sem varð fyrir skotárás frá nemanda sínum er 25 ára gömul og heitir Abby Zwerner. Facebook/Abby Zwerner

Lögmaður kennarans sem var skotinn af sex ára nemenda sínum tilkynnti í dag að kennarinn hyggist kæra skólastjórnendur vegna málsins. 

Abigail Zwerner var skotin í byrjun mánaðarins af nemenda sem tók byssu móður sinnar með í Richneck-barna­skól­ann í Virg­in­íu-ríki í Bandaríkjunum. Búið var að til­kynna stjórn­endum að barnið væri með byssu. 

Diane Toscano, lögmaður Zwerner, sagði að stjórnendum hafi borist viðvörun frá kennurum, þar á meðal Zwerner, um að drengurinn gæti verið með byssu og að hann væri ógnandi.

Þrír kennarar höfðu afskipti 

Zwerner tilkynnti stjórnendum um morguninn að drengurinn hafi hótað að berja annað barn.

„En skólastjórnendur gátu ekki hugsað sér að bregðast við,“ sagði Toscano. 

Klukkustund síðar sagði annar kennari við stjórnendur að drengurinn gæti haft meðferðis byssu en að hún hafi þó ekki séð vopnið í skólatösku hans. Kennarinn taldi að drengurinn gæti verið með byssuna í vösum sínum er hann var á skólalóðinni. 

Richneck-barna­skól­inn í Virg­in­íu-ríki í Bandaríkjunum.
Richneck-barna­skól­inn í Virg­in­íu-ríki í Bandaríkjunum. AFP/Jay Paul/Getty Images

Þriðji kennarinn tilkynnti að nemandi hafi komið grátandi til hans þar sem drengurinn hafi ógnað nemandanum með byssunni. 

Þrátt fyrir allar þessar viðvaranir gerðu stjórnendur ekkert og starfsmanni var bannað að leita á drengnum. Skólastjórnandi sagði að vasar drengsins væru of smáir og að málið mætti bíða til lok dags. 

Foreldrarnir gætu átt von á ákæru

„Hörmung gerðist svo klukkustund síðar er Abby Zwerner var skotinn í Richneck-barna­skól­anum fyrir framan skelfingalostin börn,“ sagði Toscano og bætti við að hægt hefði verið að koma í veg fyrir atvikið.

Zwerner var skotinn í brjóstkassann en hún er nú á batavegi heima hjá sér. 

Foreldrar drengsins sögðu í yfirlýsingu í síðustu viku að byssan hafi verið á öruggum stað, en drengurinn er sagður hafa náð í hana úr fataskáp móður sinnar. 

Þá sögðu þau að hann glímdi við „bráða fötlun“ og fengi sérstaka aðstoð í skólanum. Í því fælist að undir venjulegum kringumstæðum væri fjölskyldumeðlimur með honum í skólanum. Vikan sem Zwerner var skotinn var fyrsta vikan sem enginn var með drengnum í skólanum. 

Ólíklegt þykir að drengurinn verði ákærður vegna aldurs en foreldrarnir gætu átt von á að vera ákærðir fyrir að leyfa barni að meðhöndla byssu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert