Útgöngubann í höfuðborg Norður-Kóreu

Grímuklæddir Norður-Kóreubúar á fjöldasamkomu 5. janúar síðastliðinn.
Grímuklæddir Norður-Kóreubúar á fjöldasamkomu 5. janúar síðastliðinn. AFP/Kim Won Jin

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa fyrirskipað fimm daga útgöngubann í höfuðborginni Pyongyang vegna „öndunarfærasjúkdóms“.

Svo virðist sem þetta séu fyrstu takmarkanirnar víðs vegar um borgina síðan Norður-Kórea lýsti yfir sigri gegn Covid-19 í ágúst í fyrra.

Íbúum Pyongyang var gert að halda sig heima við frá deginum í dag til sunnudags. Sömuleiðis þurfa þeir að mæla hvort þeir séu með hita mörgum sinnum á dag, að sögn suðurkóresku fréttastofunnar NK News, sem vitnaði í tilkynningu frá norðurkóreskum stjórnvöldum.

Ekkert kom fram í tilkynningunni um Covid-19. Þar sagði að kvefpest væri hluti af sjúkdómnum sem væri að dreifast um höfuðborgina.

Sérfræðingar telja að kórónuveiran sé aftur farin að láta á sér kræla í Pyongyang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert