Varpað á dyr olíusjóðsins

Olíusjóður Norðmanna fitnar sem púkinn á fjósbitanum en ekki eru …
Olíusjóður Norðmanna fitnar sem púkinn á fjósbitanum en ekki eru öll fyrirtæki í náðinni þegar kemur að fjárfestingavalkostum, mannréttindabrot, kannabisefni og tóbak er meðal þess sem er illa séð. Einn af eldri jálkunum á Troll-vinnslusvæðinu sést hér í ljósaskiptunum. Ljósmynd/Changemaker

Stjórnendur norska olíusjóðsins hafa skrúfað fyrir fjárfestingar sjóðsins í tveimur fyrirtækjum, kínversku flugvélaverksmiðjunni AviChina Industry & Technology og indverska raftækjaframleiðandanum Bharat Electronics.

Með stjórn sjóðsins fer níu manna stjórn norska seðlabankans og byggir hún ákvörðun sína á ráðgjöf siðaráðs olíusjóðsins, Etikkrådet, sem ekki telur vopnasölu framangreindra fyrirtækja til Mjanmar samræmast gildum og viðmiðum sjóðsins norska.

Varð kínverska flugvélasmiðjan uppvís að því að selja stjórnvöldum í Mjanmar léttar orrustuflugvélar af gerðinni K-8 sem vitað er til að hafi verið beitt gegn borgurum landsins en mannréttindabrot eru þar daglegt brauð, þar á meðal ofsóknir í garð rohingja-múslima í Rakhine-héraðinu auk barnaþrælkunar, stríðsglæpa af hálfu stjórnarhersins, pyntinga, manndrápa og sporlauss hvarfs stjórnarandstæðinga og mótmælenda.

Alvarleg og kerfisbundin brot

Bharat-raftækjaverksmiðjan indverska var þá staðin að því að selja sömu stjórnvöldum fjarstýringar fyrir vopnakerfi sem til dæmis áhafnir skriðdreka og annarra brynvarinna ökutækja nota til að stýra vopnabúnaði utan ökutækjanna.

Ritar stjórnin á vefsíðu sjóðsins að fyrirtækjunum hafi verið vísað á dyr þar sem væri „óviðunandi hætta á að fyrirtækin selji ríki vopn sem nýtir þau til alvarlegra og kerfisbundinna brota gegn reglum þjóðaréttar“.

Í ársbyrjun í fyrra hafði olíusjóðurinn fjárfest 195 milljónir norskra króna, 2,8 milljarða íslenskra króna, í indverska fyrirtækinu og 173 milljónir, 2,5 íslenska milljarða, í því kínverska.

„Við mat á hlutdeild í frekari árásum í framtíðinni lítur ráðið til þess að [indverska] fyrirtækið sendi hergögn til Mjanmar þrátt fyrir valdarán og vitneskju um árásir hersins,“ segir siðaráð olíusjóðsins í rökstuðningi sínum fyrir að rjúfa tengslin við Bharat Electronics og tekur auk þess fram að fyrirtækið hafi haft fyrirspurnir ráðsins að engu og ekki svarað þeim.

Þrettán fyrirtæki út í fyrra

Hvað AviChina snertir telur ráðið einnig líklegt að fyrirtækið leggi sitt af mörkum til nýrra árása hers Mjanmar á borgara landsins og muni það ekki skirrast við að senda þangað fleiri orrustuvélar er fram líða stundir.

Árlega falla fyrirtæki víða um heim í ónáð sjóðsins og skildi leiðir með honum og þrettán fyrirtækjum í fyrra, þar af níu í septembermánuði einum, en meðal þeirra voru fjögur fyrirtæki er sinna kannabisframleiðslu og þrír tóbaksframleiðendur, þar á meðal danska fyrirtækið Scandinavian Tobacco og sagði siðaráðið þá í rökstuðningi að sjóðurinn vildi ekki fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiddu tóbak eða tóbaksvörur.

E24

E24II (fyrirtæki sem féllu í ónáð í fyrra)

Nettavisen

mbl.is