Auckland á kafi

Alþjóðaflugvöllurinn í Auckland á Nýja-Sjálandi er lokaður vegna flóða og …
Alþjóðaflugvöllurinn í Auckland á Nýja-Sjálandi er lokaður vegna flóða og fer ekkert flug um hann fyrr en um hádegi á morgun. AFP

Í Auckland á Nýja-Sjálandi hefur verið lýst yfir neyðarástandi vegna flóða í kjölfar mikils regns sem leitt hefur meðal annars til þess að flugvelli borgarinnar var lokað þegar vatnsborð þar innandyra náði farþegum upp í ökla. Allt flug liggur niðri þar til um hádegisbil á morgun.

Ein manneskja fannst látin í úthverfi í norðanverðri borginni en ekki er ljóst enn sem komið er hvort andlát hennar tengist vatnsveðrinu. Wayne Brown borgarstjóri kvaðst á blaðamannafundi í dag harma atburðinn.

Ekkert verður af tónleikum Elton John

Götur borgarinnar eru sem fljót af lýsingum AFP-fréttastofunnar að dæma og Chris Hipkins, nýi forsætisráðherrann sem tók við embætti í fyrradag af Jacindu Ardern, skrifar á Twitter að viðeigandi ríkisstofnanir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að aðstoða borgarana.

Tónleikum, sem breski tónlistarmaðurinn Elton John hugðist halda á Mount Smart-leikvanginum, hefur verið aflýst af öryggisástæðum vegna ástandsins í borginni og er allur almenningur hvattur til að halda sig heima sé þess nokkur kostur.

Brown borgarstjóri boðar heimsókn sína á morgun til þeirra borgarhluta sem verst hafa orðið úti þar sem hann mun kanna tjónið áður en hreinsun hefst. „Það verður stórverkefni,“ segir hann af hreinsunarstarfinu.

mbl.is