Birta myndskeiðið af Nichols í kvöld

Nichols var 29 ára gamall.
Nichols var 29 ára gamall. AFP/Memphis

Lögregluyfirvöld í Memphis-borg í Bandaríkjunum ætla að birta myndskeiðið af handtökunni á Tyre Nichols, sem lést eftir barsmíðar lögreglu, á Youtube á miðnætti í kvöld á íslenskum tíma. 

Fimm lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir morðið á Nichols og hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti meðal annars hvatt mótmælendur til að sýna stillingu vegna málsins.

Inn­an­rík­is­ör­ygg­is­mála­deild rík­is­ins (e. Depart­ment of Home­land Secu­rity) mun auka öryggisgæslu um landið allt er myndskeiðið verður gert opinbert.

Nichols, sem var 29 ára gamall, var stöðvaður vegna ógæti­legs akst­urs af lögreglu og handtekinn. Hann lést þremur dögum síðar á sjúkrahúsi vegna „mik­illa blæðinga eft­ir al­var­leg­ar bar­smíðar“ sem hann hlaut. 

Lögreglumennirnir sem voru handteknir. Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Emmitt Martin …
Lögreglumennirnir sem voru handteknir. Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Emmitt Martin III, Desmond Mills og Justin Smith. Ljósmynd/Lögreglan í Memphis

Myndskeiðið birt í fjórum pörtum

Í viðtali við CNN sagði lögreglustjóri lögreglunnar í Memphis, Cerelyn Davis, að hún hafi fengið upplýsingar um handtökuna morguninn eftir að hún átti sér stað í byrjun janúar. Hún sagðist hafa orðið „hneyksluð“ er hún sá myndskeiðið af handtökunni. 

„Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni að neinu líku á mínum ferli,“ sagði Davis og bætti við að engar vísbendingar bentu til þess að Nichols hafi ekið glannalega. 

Hún sagði að myndskeiðið úr búkmyndavélum lögreglumannanna yrði birt í fjórum pörtum á Youtube. 

Þá sagði Davis að sjúkraflutningamenn sem komu á staðinn eftir barsmíðarnar hafi ekki gefið Nichols viðunandi meðferð. 

„Þeir börðu hann í spað“

Móðir Nichols og stjúpfaðir sögðu í viðtali við CNN að þau væru föst í martröð. „Ég hef ekki barnið mitt lengur. Ég mun aldrei hafa það aftur,“ sagði móðir hans, RowVaughn Wells.

RowVaughn Wells, móðir Nichols, á minningarathöfn um son hennar í …
RowVaughn Wells, móðir Nichols, á minningarathöfn um son hennar í Memphis-borg. AFP/Scott Olson

Hún lýsti þeirri hryllilegu sýn er þau sáu Nichols á sjúkrahúsi morguninn eftir barsmíðarnar. 

„Þeir höfðu barið hann í spað. Hann var með marbletti um allan líkamann. Höfuðið hans var bólgið og líktist vatnsmelónu. Hálsinn á honum var við það að springa útaf bólgum, þeir höfðu brotið hálsinn hans. Nef sonar míns leit út eins og „S“. Þeir börðu hann í spað,“ sagði Wells og bætti við að ef Nichols hefði lifað „hefði hann verið grænmeti“.

Tíu lögreglumenn viðstaddir – enginn hjálpaði honum

Lögmaður fjölskyldunnar, Benjamin Crump, sagði við CNN að á myndskeiðinu heyrist í Nichols kalla á móður sína þrisvar sinnum er lögreglumennirnir voru að berja hann.

Rodney Wells, stjúpfaðir Nichols, sagði að lögreglumennirnir hafi sparkað í stjúpson sinn eins og þeir væru að sparka í fótbolta. 

Hann sagði að það versta við myndskeiðið hafi verið að tíu lögreglumenn hafi verið viðstaddir handtökuna og enginn gerði neitt til að stöðva ofbeldið. Enginn reyndi að hjálpa Nichols. 

Lögreglumennirnir og Nichols voru allir svartir á hörund. Móðir hans sagði í viðtalinu það ekki vera rétt að svart fólk kalli einugnis hvíta lögreglumenn til saka. „Okkur er alveg sama hvaða litur lögreglumaðurinn er. Við viljum að slæmum lögreglumönnum séu sagt upp.“ 

Íbúar í Memphis að minnast Nichols.
Íbúar í Memphis að minnast Nichols. AFP/Scott Olson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert