Lá látin í íbúð sinni í þrjú ár

Laura Winham var 38 ára gömul er hún lést.
Laura Winham var 38 ára gömul er hún lést. Ljósmynd/Hudgell Solicitors

Bresk kona lá látin í íbúð sinni í þrjú ár áður en bróðir hennar fann lík hennar í maí árið 2021. Hann sagði að líkið hafði verið nánast eins og múmía, einungis beinagrindin eftir. 

BBC greinir frá því að Laura Winham var 38 ára og glímdi við andleg veikindi. Fjölskylda hennar telur að breska heilbrigðiskerfið og félagsþjónustan hafi yfirgefið hana og skilið hana eftir til að deyja.

Talið er að Winham hafi látist í nóvember árið 2017 en henni var vísað á félagsþjónustu tvisvar fyrir það. 

Bæjarráðið í Surrey, þar sem Winham bjó, sagði málið vera „sannarlega hörmulegt“. 

„Ég þarf hjálp“

Winham var með geðklofa og var í litlu sem engu sambandi við fjölskyldu sína. 

Lögreglan heimsótti Winham í október árið 2017 og tilkynnti til félagsþjónustunnar að hún væri að vanrækja sjálfa sig, ætti lítinn mat og virtist ekki vita hvar hún gæti leitað sér aðstoðar. Talið er að þetta hafi verið í síðasta sinn sem Winham sást áður en hún lést. 

Stuttu eftir heimsókn lögreglunnar ritaði Winham á dagatal sitt, „ég þarf hjálp“.

Systir hennar sagði að fjölskyldan gat ekki verið í sambandi við Winham vegna geðklofans, þar sem að veikindin leiddu til að hún hélt að fjölskylda hennar ætlaði að gera henni mein. 

Systirin sagði að þó að yfirvöld hafi áttað sig á að Winham þyrfti aðstoð þá gerði enginn neitt til að hjálpa henni.

mbl.is