Reyna á sambandið með IKEA-samsetningum

AFP/Loic Venance

Fjármálavefsíðan FinaceBuzz leitar nú að pari sem er til í að láta reyna á styrk sambands síns með því að setja saman IKEA-húsgögn. Parið sem verður fyrir valinu fær inneignarkort til að kaupa svefnherbergishúsgögn, sem það þarf svo að púsla saman í sameiningu.

„Við leitum að pari sem er tilbúið að láta reyna á ástina í aðdraganda Valentínusardagsins með því að innrétta svefnherbergi saman og skrásetja reynsluna,“ segir á síðunni. „Bara þú og þinn heittelskaði, leiðbeiningarbæklingur án orða og sexkantur.“

Fyrirtækið segir að húsgögn séu jafnan dýrasti hluti þess að flytja inn í nýja íbúð. Þótt IKEA bjóði vissulega upp á ódýr húsgögn þá eigi samsetning þeirra til að reyna verulega á þolrifin. Vefsíðan vilji deila reynslu pars af þessu ferli með lesendum sínum, til að þeir geti metið hvort það sé sparnaðarins virði.

Parið fær þúsund dollara, eða sem samsvarar rúmum 140 þúsund krónum, takist því að komast í gegnum þessa lífsreynslu, en áhugasamir geta sótt um á síðunni til 14. febrúar.

mbl.is