Sænska ríkisstjórnin nýtur lítils trausts

Slakið aðeins á gæti Ulf Kristenssen verið að segja á …
Slakið aðeins á gæti Ulf Kristenssen verið að segja á þessari mynd. AFP/Pontus Lundah

Einungis þriðjungur aðspurða segist bera traust til sænsku ríkisstjórnarinnar samkvæmt könnun sem Aftonbladet greindi frá í dag. 

Forsætisráðherrann Ulf Kristersson hefur verið um hundrað daga í embætti en hann og ríkisstjórn glíma við ýmis erfið mál. Eins og víðast hvar í Evrópu lætur verðbólgan á sér kræla, hálfgerð skálmöld virðist ríkja í Stokkhólmi og umsókn Svía að NATO reynist einnig erfið. 

Viðræður eru í biðstöðu og samskipti Svía og Tyrkja virðast súrna með hverjum deginum sem líður. Kveikt var í kóraninum fyrir utan sendiráð Tyrklands í Stokkhólmi og vakti það hörð viðbrögð. Hafa neytendur í múslímaríkjum verið hvattir til að sniðganga sænskar vörur og sænski fáninn hefur verið brenndur í múslimaríkjum að undanförnu. 

Sænski fáninn brenndur í Afganistan í vikunni.
Sænski fáninn brenndur í Afganistan í vikunni. AFP/Shafiullah Kakar

Minnihluti þeirra sem svöruðu skoðanakönnuninni sögðu sænsku ríkisstjórnina standa sig vel í viðræðunum við NATO. Meirihluti sagði hana annað hvort standa sig nokkuð illa eða mjög illa í aðildarviðræðunum. 

Einn af ráðgjöfum Kristerssons sagði starfi sínu lausu í vikunni eftir að hafa verið staðinn að því að segja lögreglu ósatt. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir ríkisstjórnina. 

mbl.is