Myndskeið: Beittur hörku við handtökuna

Úr upptöku búkmyndavélar eins lögreglumannsins.
Úr upptöku búkmyndavélar eins lögreglumannsins. Skjáskot

Lögregluyfirvöld í Memphis-borg í Bandaríkjunum birtu í nótt myndbandsupptökur frá handtöku Tyre Nochols, en hann lést eftir barsmíðar lögreglu. 

Myndbandið má sjá hér að neðan, en það er ekki fyrir viðkvæma. 

Fimm lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir morð á Nichols, en hann var 29 ára gamall og dökkur á hörund, en það eru lögreglumennirnir líka. Var hann stöðvaður vegna ógætilegs aksturs, en lést þremur dögum síðar á sjúkrahúsi vegna „mikilla blæðinga og alvarlegra barsmíða.“

Kallaði eftir móður sinni

Málið hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum, og birting myndskeiðsins hefur ekki dregið úr þeim viðbrögðum. 

Þar má sjá Nichols dreginn úr bifreiðinni, honum gefið raflost og haldið niðri. Tekst honum þá að brjótast úr taki lögreglu og hlaupast á brott. Er þá skotið á eftir honum úr rafbyssu í tilraun til að fella hann. 

Lögreglumennirnir ná honum loks og taka til við að sparka í hann og slá ítrekað, auk þess sem þeir beita piparúða. Heyrist Nichols stynja og kalla eftir móður sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert