Segir tvö ár í stríð milli Bandaríkjanna og Kína

Michael A. Minihan, eða Mike Minihan eins og hann er …
Michael A. Minihan, eða Mike Minihan eins og hann er gjarnan kallaður, heldur ræðu í herstöð í október 2021. Ljósmynd/Isaac Olivera

Stríð milli Bandaríkjanna og Kína gæti hafist innan tveggja ára ef marka má orð Michael A. Minihan, herforingja í flugher Bandaríkjanna. Í minnisblaði beinir hann þeim tilmælum til undirmanna sinna að flýta undirbúningi fyrir slík átök.

„Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Minhan í minnisblaði sínu sem the Washington Post fjallar um

Kosningar og Xi áhyggjuefni

Áhyggjur Minihan lúta aðallega að fyrirætlunum Xi Jinping, leiðtoga og aðalritara Kommúnistaflokks Kína, og forsetakosningum í Taívan og Bandaríkjunum á næsta ári. 

„Ég hef það á tilfinningunni að átök verði hafin árið 2025. Xi er nú þegar búinn að tryggja sér sitt þriðja kjörtímabil og stríðsráðið hans kom saman í október. Kosningarnar í Taívan eru í nóvember 2024 og það býður honum upp á réttlætingu.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru svo í september 2024 sem þýðir að þjóðin öll verður annars hugar sem er tækifæri fyrir Xi. Allt kemur þetta heim og saman fyrir stríðsátök árið 2025,“ hefur Washington Post eftir minnisblaði Minhan.

Varnarmálaráðuneytið ekki á sama máli

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir að Kína sé leiðandi vandi fyrir ráðuneytið og að Bandaríkin muni hér eftir sem hingað til vinna með sínum bandamönnum að því að halda í friðinn í Suður-Kínahafi. 

Annar hátt settur liðsmaður Bandaríkjahers, sem vildi ekki koma fram undir nafni í umfjöllun Washington Post, segir ummæli Minihan ekki endurspegla viðhorf varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna um Kína. 

Minihan er ómyrkur í máli í minnisblaðinu og hvetur liðsmenn sína til þess að undirbúa sig á fjölbreyttan máta.

Hann hvetur þá sem hafi leyfi til þess að munda skotvopn til þess að æfa skotfærnina með því skjóta heilu magasíni í sjö metra háan viðardrumb „vitandi að iðrunarlaust dráp er það eina sem dugir til.“

Minnihan hvetur liðsmenn sína aukinheldur til þess að gera viðeigandi ráðstafanir heima fyrir vegna yfirvofandi átaka en líka til þess að taka þjálfun og æfingum hersveitarinnar af alvöru.

Kunnugur Kyrrahafi

Herforinginn hefur síðasta áratuginn sinnt ýmsum áhrifastöðum í Kyrrahafinu. Hann var meðal annars aðstoðarforingi Suður-Kyrrahafsstöðvarinnar með sérstaka áherslu á málefni Kína og Taívan frá 2019 og til 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert