Lögreglumenn réðust á heimilislausan mann

Lögreglumennirnir voru reknir á fimmtudag. Mynd úr safni.
Lögreglumennirnir voru reknir á fimmtudag. Mynd úr safni. AFP

Tveir lögreglumenn í Flórída hafa verið ákærðir fyrir að hafa ráðist á heimilislausan mann eftir að hafa handtekið hann án ástæðu og farið með hann á einangraðan stað þar sem þeir börðu hann þar til hann missti meðvitund.

Guardian greinir frá því að 17. desember hafi lögreglumennirnir Rafael Otano og Lorenzo Orfila í borginni Hialeah í Miami-Dade-sýslu handjárnað hinn fimmtuga Jose Ortega Gutierrez, heimilislausan mann sem þekktur var á svæðinu.

Ekki var að sjá á eftirlitsmyndavélum að Gutierrez hefði sýnt neina hegðun sem gæti réttlætt handtöku.

Reknir og vistaðir í fangelsi

Lögreglumennirnir eru sagðir hafa kastað Gutierrez í jörðina og barið hann. Þegar hann vaknaði var hann án handjárna og blæddi úr höfði hans. Lögreglumaður sem ekki var á vakt kom að Gutierrez er hann var úti að ganga með hundinn sinn og hringdi í neyðarlínuna.

Otano og Orfila voru reknir á fimmtudag og færðir inn í Miami-Dade fangelsið. Dómari hefur synjað þeim um lausn gegn tryggingu.

mbl.is