Ræddi við ráðherra Ísraels og Palestínu

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP/Mikhail Metzel/Sputnik

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddi símleiðis við utanríkisráðherra Ísraels og Palestínu og hvatti til stillingar á Vesturbakkanum, í ljósi átaka milli ríkjanna nýverið.

Sjö létu lífið í skotárás á samkunduhús í Jerúsalem í fyrradag og tveir særðust í árás á borgina í morgun. Þessar árásir hafa verið tengdar við árásir Ísraelshers á Vesturbakkanum þar sem níu Palestínumenn í flóttamannabúðum létu lífið.

Lavrov kallaði eftir því við Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísraels, og Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu, að ríkin sýndu stillingu þar sem hætta sé á því að átökin muni stigmagnast.

„Rússland lagði áherslu á þungar áhyggjur stjórnvalda vegna átakanna á Vesturbakkanum, í deilu Ísraels- og Palestínumanna,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytis Rússlands.

mbl.is