Bilun í kjarnorkuveri í Japan

Frá stjórnborði kjarnaofns í kjarnorkuveri í Japan.
Frá stjórnborði kjarnaofns í kjarnorkuveri í Japan. AFP/Kazuhiro Nogi

Bilun varð í Takahama-kjarnorkuverinu í Fukui í Japan í morgun þegar einn fjögurra kjarnaofna slökkti á sér vegna viðvörunar. Óvenjulega hröð fækkun nifteinda leiddi til viðvörunarinnar, samkvæmt yfirlýsingu frá Kjarnorkueftirlitsstofnuninni í Japan.

Ekki orðið vart við aukna geislun

Ekki hefur orðið vart við aukna geislun vegna bilunarinnar og kjarnaofninn er samkvæmt yfirlýsingunni að kæla sig með eðlilegum hætti.

Ríkismiðillinn NHK segir yfirvöld í Fukui hafa sagt ekkert óeðlilegt við hitastig eða þrýsting á kjarnaofninum áður en bilunin átti sér stað.

Rekstraraðili kjarnorkuversins, Kansai Electric Power Co, sagði rannsókn standa yfir á orsök bilunarinnar. Kjarnaofninn var yfirfarinn í lok síðasta árs samkvæmt skipulagðri viðhaldsdagskrá.

mbl.is