Rússar gera harða hríð að Vugledar

Úkraínskir hermenn bera samherja sinn, sem steig á jarðsprengju, á …
Úkraínskir hermenn bera samherja sinn, sem steig á jarðsprengju, á börum í Donetsk í gær. AFP/Yasuyoshi Chiba

Denis Púsjilín, rússneskur embættismaður sem fer með stjórn mála í Donetsk-héraðinu í Úkraínu, sagði í dag að rússneskar herdeildir sæktu nú fram í nágrenni við bæinn Vugledar í Austur-Donetsk.

„Deildir okkar færast nær Vugledar,“ sagði Púsjilín í sjónvarpsviðtali og bætti því við að herinn hefði komið upp bækistöðvum við austurjaðar bæjarins og væri að athafna sig þar. Talsmaður úkraínska hersins, Jevgen Jerín, sagði hins vegar að Rússar hefðu ekki náð að gera neinn óskunda í eða við Vugledar. „Óvinurinn varð fyrir skothríð [...] frá stórskotaliði og úr skotvopnum. Óvinurinn varð fyrir skakkaföllum og hörfaði,“ sagði Jerín.

Verja Vugledar með kjafti og klóm

Púsjilín í Rússlandi lét þess þá getið að úkraínski herinn hefði haft tímann á sínu bandi og náð að hreiðra um sig í Vugledar þar sem stór iðnaðarmannvirki væru og háar byggingar sem nýttust við varnir bæjarins. Varnarmálaráðuneyti Rússlands lagði einnig orð í belg og sagði að her landsins hefði náð að koma sér fyrir á heppilegum stöðum í Vugledar og mannfall orðið í röðum Úkraínumanna.

Frá Kænugarði barst yfirlýsing í síðustu viku um að her landsins myndi verja Vugledar með kjafti og klóm en bærinn er um 150 kílómetra suður af Bakmút þar sem barist hefur verið linnulaust mánuðum saman með mannfalli á báða bóga.

Donetsk-héraðið er að nokkru leyti í höndum aðskilnaðarsinna hliðhollum Rússum en í Kreml ríkir einhugur um að koma öllu héraðinu undir rússneska stjórn.

Volódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að ástandið í fremstu víglínu væri mjög erfitt og Rússar gerðu linnulitlar árásir á Bakmút, Vugledar og fleiri bæi og borgir í Donetsk.

mbl.is