Bundin niður eftir að hafa skyrpt á og kýlt áhöfnina

AFP/Giuseppe Cacace

Áhöfn indverska flugfélagsins Vistara batt ítalska konu við sætið sitt eftir að hún kýldi starfsmann og skyrpti á annan.

BBC greinir frá því að konan var um borð í flugi frá Abú Dabí er hún var handtekin í Múmbaí á Indlandi í gær. Henni var síðar sleppt gegn tryggingu. 

Lögmaður hennar sagði ásakanir á hendur konunni vera falskar. Vistara heldur því hins vegar fram að áhöfnin hafi þurft að halda konunni í skefjum vegna „óstýrilátrar og ofbeldisfullrar hegðunar“. Hófst sú hegðun eftir að konan settist í fyrsta farrými, án þess að eiga þar sæti. 

Þá er konan einnig ásökuð um að hafa gengið sóðalega um flugvélina. 

Var ekki drukkin

Prabhakar Tripathi, lögmaður konunnar, sagði við BBC að konunni hafi þótt sætið sitt óþægilegt og því beðið um að fá annað sæti. Þetta leiddi til ágreinings við starfsfólkið. 

Þá sagði hann að konunni hafi ekki verið hleypt á klósettið á meðan ókyrrð var í loftinni. 

„Henni var síðar hleypt á klósettið en eftir að hún kom tilbaka var hún bundin við sætið sitt,“ sagði Tripathi og bætti við að konan hafi ekki verið drukkin líkt og indverskir fjölmiðlar hafa haldið fram. 

Í byrjun þessa mánaðar var maður handtekinn fyrir að hafa pissað á sessunaut sinn í flugi á leið til Indlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert