Hátt í 650 handteknir í sérstakri lögregluaðgerð

Fjölmennt lið lögreglu tók þátt í aðgerðinni.
Fjölmennt lið lögreglu tók þátt í aðgerðinni. AFP

Hátt í 650 hafa verið ákærðir í Ástralíu í kjölfar fjögurra daga lögregluaðgerðar sem beindist gegn einstaklingum sem eru sakaðir um sérstaklega hættulegt heimilisofbeldi.

Alls eru ákæruliðirnir 1.153 talsins þar sem ákært er fyrir heimilisofbeldi, vörslu fíkniefna og vopn, en lagt var hald á talsvert magn fíkniefna og vopna, m.a. skotvopn og sverð. Ákærurnar voru birtar í liðinni viku í kjölfar aðgerðanna í Nýju Suður-Wales.

Heimilisofbeldi er meiriháttar vandamál í Ástralíu að því er segir í umfjöllun BBC. Fram kemur að lögreglan þar í landi verji mun meiri tíma í að bregðast við slíkum málum miðað við önnur mál. 

Í lögregluaðgerðinni, sem kallaðist Amarok-aðgerðin, voru alls 648 handteknir. Þar af voru 164 einstaklingar sem voru efstir á lista yfir þá sem hafa verið eftirlýstir fyrir heimilisofbeldi.

Það var ekki einfalt verk að hafa uppi á mörgum þeirra að sögn lögreglu, og það krafðist því samvinnu margra lögregluembætta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert