Fleiri tré í þéttbýli gætu dregið úr dauðsföllum

Tré setja mark sitt á borgarumhverfið í Mílanó.
Tré setja mark sitt á borgarumhverfið í Mílanó. AFP

Gróðursetning fleiri trjáa í þéttbýli gæti dregið úr dauðsföllum, sem tengjast beint miklum hitum og hitabylgjum, um þriðjung. Með því að auka trjáþekju um 30 prósent myndi staðbundið hitastig lækka um 0,4 gráður að meðaltali yfir sumartímann. Þetta kemur fram í nýju tölu­blaði virta læknisfræðiritsins Lancet.

Loftslagsáhrif hafa þegar aukið vandann en á seinasta ári mældist heitasta sumar sem mælst hefur í Evrópu.

Hærra hitastig mælist í borgum en nærliggjandi úthverfum eða sveitum vegna hitaeyjaáhrifa í þéttbýli. Þessi aukahiti stafar fyrst og fremst af skorti á gróðri og útblæstri frá loftræstikerfum auk malbiks og byggingarefnis sem dregur í sig hitann.

Hátt hitastig hefur heilsufarslegar afleiðingar

Samkvæmt rannsókninni hefði verið hægt að koma í veg fyrir þriðjung ótímabærra dauðsfalla í 93 borgum Evrópu. Í dag eru tæplega 15 prósent borgarumhverfis í Evrópu þakin einhvers konar gróðri.

„Það er nú þegar vitað að hátt hitastig í þéttbýli hefur neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar, svo sem hjarta- og öndunarfærabilanir, innlagnir á sjúkrahús og ótímabær dauðsföll,“ segir Tamara lungman, aðalhöfundur rannsóknarinnar og vísindamaður við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina í Barcelona.

mbl.is