Lokaðist inni í flutningagámi í sex daga

Drengurinn var lokaður inni í gáminum í sex daga. Mynd …
Drengurinn var lokaður inni í gáminum í sex daga. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Fimmtán ára drengur lokaðist inni í flutningagámi eftir að hafa falið sig þar í feluleik. Komst hann ekki út fyrr en sex dögum síðar, þegar gámurinn hafði ferðast frá heimalandi hans, Malasíu, alla leið til hafnarborgarinnar Chittatong í Bangladesh.

Hafnarstarfsmenn opnuðu gáminn og uppgötvuðu drenginn þar þann 17. janúar og var hann samstundis sendur á sjúkrahús til aðhlynningar. Flutningaskipið lagði af stað frá Malasíu þann 11. janúar og hafði ferðast rúma 2.500 kílómetra. CBS greinir frá.

Útiloka mansalskenningu

Var hann einsamall í gáminum og gat ekki átt samskipti við starfsfólk hafnarinnar en sagðist ganga undir nafninu Fahim. Málið er á borði lögreglu að sögn Datuk Seri Saifuddin Nasution Ismail, innanríkisráðherra Malasíu. Lögreglan útilokar að um mansal hafi verið að ræða að hans sögn.

„Kenningin er sú að drengurinn hafi farið inn í gáminn, sofnað og lent hér,“ er haft eftir ráðherranum í malaíska miðlinum Bernama. Miðlar ytra hafa birt myndir af drengnum sem er sagður hafa verið illa áttaður eftir ferðalagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert