Segir Noreg ekki hagnast á stríðinu

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. AFP/Petter Bernstein

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, neitar því að landið hagnist á stríðinu í Úkraínu vegna sölu á jarðgasi. 

„Það er skoðun sem stenst ekki,“ sagði Støre við AFP-fréttaveituna spurður hvort Noregur okri á sölu á jarðgasi. Forsætisráðherra Póllands er á meðal þeirra sem hefur haldið því fram. 

Upphæðin tilkynnt á næstu dögum

Hann nefndi að stór sending hergagna sé á leiðinni til Úkraínu frá Noregi.

Þá er ríkisstjórnin að leggja loka hönd á aðstoð til margra ára sem er ætluð Úkraínu og fátækjum ríkjum sem hafa orðið fyrir keðjuverkandi áhrifum stríðsins.

Upphæð aðstoðarinnar verður tilkynnt á næstu dögum. 

Nú stærsti framleiðandinn

Eftir að stríðið hófst hefur Noregur fjölgað sendingum jarðgass til Evrópu til þess að bæta upp fyrir sendingar sem komu áður frá Rússlandi.

Noregur er nú stærsti framleiðandi gass í Evrópu. 

Áætlað er að hagnaður ríkissjóðs Noregs á þessu ári verði 1,12 billjónir norskra króna. Þrýst hefur verið á stjórnvöld að gefa Úkraínumönnum hluta þess hagnaðar.

mbl.is