Varar við hefnd Rússa

Ursula von der Leyen ásamt Selenskí.
Ursula von der Leyen ásamt Selenskí. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti varar við því að Rússar séu að byggja upp herlið sitt og þeir ætli að „hefna sín“ á Vesturlöndum.

Ummælin lét hann falla á blaðamannafundi í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, ásamt Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Hún sagði sambandið vera að leggja lokahönd á nýjar refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu fyrir tæpu ári síðan.

AFP/Sergei Supinskí

„Rússar eru að þétta raðir hersveita sinna. Við vitum það öll. Þeir eru að búa sig undir að hefna sín, ekki bara á Úkraínu, heldur á frjálsri Evrópu í heild sinni og hinum frjálsa heimi,“ sagði Selenski á blaðamannafundinum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti minnist þess í borginni Volgograd í dag að 80 er ár eru liðin síðan Sovétmenn sigruðu Þjóðverja í borginni Stalíngrad. Hann segir að Rússar ætli að halda áfram aðgerðum sínum í Úkraínu og að refsiaðgerðir Vesturlanda hafi lítið að segja.

Pútín í Volgograd í dag.
Pútín í Volgograd í dag. AFP

Von der Leyen sagði aftur á móti refsiaðgerðirnar hafa þegar valdið usla þegar kemur að efnahag Rússalands og þær hafi „ýtt honum aftur um eina kynslóð“. Reiknaði hún með því að eingöngu verðþakið sem er á olíu kosti Rússa um 160 milljónir evra á hverjum einasta degi, eða um 25 milljarða króna.

Hún bætti við að nýjar refsiaðgerðir, þær tíundu í röðinni, verði kynntar áður en ár verður liðið frá innrásinni, 24 febrúar.

mbl.is