Annar njósnaloftbelgur sást yfir Suður-Ameríku

Kínverski njósnaloftbelgurinn sem talinn er vera ætlaður til njósna.
Kínverski njósnaloftbelgurinn sem talinn er vera ætlaður til njósna. AFP/Chase Doak

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur greint frá því að annar loftbelgur, að öllum líkindum kínverskur njósnaloftbelgur hafi sést fljúga yfir Suður-Ameríku á föstudag. Daginn áður var greint frá því að slíkur loftbelgur hefði flogið yfir norðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem eru flugstöðvar hersins og kjarnorkueldflaugar í neðanjarðarsílóum.

Sá loftbelgur flaug inn í loft­helgi Banda­ríkj­anna á þriðju­dag en leyniþjón­usta Banda­ríkj­anna hafði verið að fylgj­ast með hon­um tölu­vert áður en það gerðist.

„Við höfum gögn um að loftbelgur sé á flugi yfir Suður-Ameríku. Við gerum ráð fyrir því að um sé að ræða annan kínverskan njósnaloftbelg,“ sagði Pat Ryder, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, í yfirlýsingu. Ekki var þó greint frá nákvæmri staðsetningu loftbelgsins.

Segja loftbelginn í eigu óbreyttra borgara

Kínverjar vísuðu því á bug í gær að loftbelgurinn sem sást yfir Bandaríkjunum væri njósnaloftbelgur. Utanríkisráðneyti Kína sagði í tilkynningu að loftbelgurinn væri í eigu óbreyttra borgara og væri notaður í vísindarannsóknum. Hann hefði óvart flogið inn í bandaríska lofthelgi.

Ant­ony Blin­ken, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, frestaði fyrirhugaðri helgar­heim­sókn til Pek­ing eft­ir að loftbelgurinn sást í banda­rískri loft­helgi. Mun Blinken hafa tjáð æðsta embættismanni utanríkismála í Kína að staðsetning loftbelgsins væri óásættanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert