Verður tiltölulega auðvelt að ná í brakið

Orrustuþotur bandaríska hersins skutu niður belginn rétt eftir klukkan hálf …
Orrustuþotur bandaríska hersins skutu niður belginn rétt eftir klukkan hálf þrjú á staðartíma, en einungis eitt flugskeyti þurfti til þess að skjóta hann niður. AFP/Haley Walsh

Bandaríski sjóherinn og bandaríska landhelgisgæslan eru nú að tryggja svæðið í kringum kínverska loftbelginn sem var skotinn niður nærri strönd Suður-Karólínu. 

Orrustuþotur bandaríska hersins skutu niður belginn rétt eftir klukkan hálf þrjú að staðartíma en einungis eitt flugskeyti þurfti til þess að taka hann niður. 

Yfirmaður í bandaríska hernum tjáði CNN að brakið sé á um 14 metra dýpi og því verði tiltölulega auðvelt að ná í það. 

Kafarar sjóhersins og mannlausir kafbátar munu ná í brakið og gerir yfirmaðurinn ráð fyrir að aðgerðin muni ekki taka það langan tíma. „Ég býst ekki við að það taki mánuði eða vikur.“

Belgurinn að njósna um hernaðarlega mikilvægilega staði

Lloyd Austin varnarmálaráðherra sagði í yfirlýsingu að loftbelgurinn hefði verið notaður til þess að „njósna um hernaðarlega mikilvæga staði í Bandaríkjunum“. 

Þá sagði hann að bandaríski herinn hefði verið í samráði við kanadísk stjórnvöld er kom að því að skjóta niður loftbelginn. 

„Aðgerð dagsins var af ásettu ráði og lögmæt og sýndi að Biden forseti og þjóðaröryggisteymi hans mun alltaf setja öryggi bandarísku þjóðarinnar í fyrsta sæti er bregðast þarf við á árangursríkan hátt við óviðunandi broti Alþýðulýðveldisins Kína á fullveldi okkar,“ sagði í yfirlýsingu Austin. 

mbl.is