Fannst látin ásamt eiginmanni og dóttur

Emma Pattinson, rektor Epsom-háskóla, og eiginmaður hennar, George Pattinson, fundust …
Emma Pattinson, rektor Epsom-háskóla, og eiginmaður hennar, George Pattinson, fundust látin ásamt sjö ára gamalli dóttur sinni í byggingu skólans á Bretlandi í dag. Ljósmynd/Wikipedia.org

Emma Pattinson, rektor Epsom-háskóla í Surrey á Bretlandi, fannst látin í byggingu á lóð skólans ásamt eiginmanni sínum og sjö ára gamalli dóttur. BBC greinir frá.

Tilkynnt var um fundinn klukkan 13.10 í dag að staðartíma í Bretlandi. 

Lögregla telur sig vissa um að um afmarkað atvik sé að ræða og að „enginn þriðji aðili hafi komið að málinu“. Rannsókn málsins stendur þó enn yfir. 

Pattinson hafði unnið við skólann í fimm mánuði, en Epsom-háskóli var útnefndur besti sjálfstæði skólinn í Bretlandi á síðasta ári. 

„Mig langar fyrst að senda samúðarkveðjur til vina og fjölskyldu Emmu, Lettie og George, og einnig til allra nemenda og starfsmanna Epsom-háskóla,“ sagði Kimball Edey yfirrannsóknarlögreglumaður í tilkynningu. 

mbl.is