Skaut á börn sem köstuðu snjóbolta í bíla

Myndin er frá Buffalo í New York-ríki þar sem nú …
Myndin er frá Buffalo í New York-ríki þar sem nú er snjóþungt. AFP

Dómstóll í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum hefur dæmt karlmann sem skaut á börn sem köstuðu snjóboltum í bíl hans í 16 ára fangelsi. 

ABC News greinir frá því að atvikið hafi átt sér stað í janúar árið 2020. Sjö börn voru þá að kasta snjóboltum í bíla sem keyrðu fram hjá í borginni Milwaukee. William Carson sneri þá við, fór út úr bíl sínum og skaut úr byssu að börnunum. 

Tvö barnanna særðust er þau fengu skot í lærið og handlegginn. Þá hæfði skot jakka þriðja barnsins. 

Saksóknarar í málinu fóru fram á 25 ára fangelsisdóm eftir að kviðdómur dæmdi Carson sekan í nóvember. 

Hann mun nú sitja í fangelsi í 16 ár og vera á skilorði í tíu ár. 

mbl.is