Tunglfiskur fannst í Noregi

Tunglfiskurinn, Mola mola, geispaði golunni við strönd Þrændalaga í Noregi …
Tunglfiskurinn, Mola mola, geispaði golunni við strönd Þrændalaga í Noregi enda sjórinn þar fullkaldur fyrir tegundina. Ljósmynd/Gro Marie Torfinnsdatter-Sponberg Adsen

„Ég fann þennan tunglfisk þegar ég var í göngutúr í fjörunni í Skammingen í Olden í desember,“ segir Gro Marie Torfinnsdatter-Sponberg Adsen í samtali við mbl.is en staðurinn sem hún nefnir liggur innan marka sveitarfélagsins Ørland í Þrændalögum.

Gekk Adsen þar fram á dauðan tunglfisk, eða Mola mola eins og dýrið heitir einfaldlega á latínu, sem er sjaldséður gestur við Noregsstrendur, helst að tunglfiskur slæðist þangað síðla hausts eða snemma vetrar með Golfstraumnum að sögn norsku Hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, enda þolir tegundin kaldan sjó illa og telur einn fræðinga stofnunarinnar, Gro van der Meeren, að þessi hafi hreinlega króknað úr kulda.

Adsen er búsett í litlum þéttbýliskjarna, Lysøysund, sem tilheyrir Ørland, og tók þátt í hvatasamkeppni íþróttafélagsins þar, sem gengur út á að safna stigum með því að heimsækja fyrirframákveðna staði í gönguferðum. Einn þessara staða er á Skammingen og varð för hennar þangað til þess að hún fann hræ tunglfisksins í fjörunni.

Hringdi í manninn á Facetime

„Ég tilkynnti fundinn á netsíðunni „Dugnad for havet“ svo hann yrði skráður þar,“ segir Adsen en síðu þessari heldur Havforskningsinstituttet úti og getur almenningur látið vita þar af sjávardýrum sem það rekst á, hvort heldur dauð eru eða lifandi. Þetta nýta Norðmenn sér augljóslega nokkuð, yfir 2.600 skráningar er að finna á síðunni, sem hóf göngu sína árið 2020, og barst sú síðasta klukkan 19:30 að norskum tíma í dag, sunnudag.

Adsen ásamt ferfætlingi fjölskyldunnar. Hún kveður það spennandi að finna …
Adsen ásamt ferfætlingi fjölskyldunnar. Hún kveður það spennandi að finna dýr sem er svo sjaldgæft í Noregi sem tunglfiskurinn. Ljósmynd/Gro Marie Torfinnsdatter-Sponberg Adsen

„Ég var nú eiginlega bara á leið heim aftur þegar ég ákvað að rölta niður í fjöru,“ heldur Adsen áfram frásögn sinni. „Ég kom þá auga á eitthvað sem ég hélt í fyrstu að væri steinn en sá fljótlega að þetta var eitthvað allt annað. Ég hringdi þá í manninn minn á Facetime og sýndi honum fundinn og við urðum sammála um að þetta hlyti að vera tunglfiskur,“ segir hún og bætir því við að margar staðfestingar á því hafi borist eftir að hún deildi myndum af fiskinum á Facebook og Instagram.

„Hann var kannski um hálfur metri á lengd svo þetta var ekki einn af þessum stóru,“ segir hún, en tunglfiskur getur orðið upp undir tveggja metra langur og tvö tonn að þyngd. „En hvað sem því líður er spennandi að finna eitthvað sem greinilega er sjaldgæft hér í Noregi,“ segir Adsen að lokum.

Tunglfiskur getur orðið allt að tvö tonn en þessi átti …
Tunglfiskur getur orðið allt að tvö tonn en þessi átti nokkuð eftir í slíka þyngd þegar hann var kallaður á æðri stigu. Ljósmynd/Gro Marie Torfinnsdatter-Sponberg Adsen

Vefsíðan Dugnad for havet

mbl.is