Dómsdagsklukkan tifar hratt

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flutti svartsýna ræðu í dag …
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flutti svartsýna ræðu í dag þar sem hann sagði að Dómsdagsklukkan hefði aldrei verið nær gjöreyðingu mannkyns. AFP/Fabrice Coffrini

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði þjóðir við því í dag að hann óttist að líkur á frekari stigmögnun í átökum Rússa og Úkraínu þýði að heimurinn stefni í „víðtækara stríð“.

Aðalritarinn mælti fyrir forgangsmálum sínum á árinu í svartsýnni ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um innrás Rússa, loftslagskreppuna og mikla fátækt.

Áskoranir sem aldrei fyrr

„Við erum byrjuð að horfast í augu við samlegðaráhrif áskorana ólíkt nokkrum öðrum sem við höfum séð á lífsleiðinni,“ sagði hann við erindreka í New York.

Guterres vakti athygli á því að helstu vísindamenn og sérfræðingar í öryggismálum hefðu fært „Dómsdagsklukkuna“ niður í aðeins 90 sekúndur til miðnættis í síðasta mánuði, en klukkan hefur aldrei verið nær því að gefa til kynna gereyðingu mannkyns.

Ógnvænleg viðvörun

„Við þurfum að vakna og koma okkur í vinnuna,“ lagði hann þunga áherslu á þegar hann las  upp lista yfir brýn úrlausnarefni fyrir árið 2023.

Guterres nefndi stríðið í Úkraínu fyrst í krefjandi verkefnum dagsins …
Guterres nefndi stríðið í Úkraínu fyrst í krefjandi verkefnum dagsins í dag. AFP/Sergei Supinsky

Efst á listanum var stríð Rússa í Úkraínu sem á næstu dögum hefur staðið yfir í heilt ár.

„Friðarhorfur minnka stöðugt. Líkurnar á frekari stigmögnun og blóðsúthellingum aukast með hverjum degi,“ sagði hann.

„Ég óttast að heimurinn sé ekki að ganga í átt að víðtækara stríði í einhverri leiðslu. Ég óttast að hann sé að gera það með galopin augu og með fullu viti.“

Guterres vísaði til annarra ógna við frið, allt frá átökum Ísraela og Palestínumanna til Afganistan, Myanmar, Sahel og Haítí.

„Ef hvert land uppfyllti skyldur sínar samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna yrði rétturinn til friðar tryggður,“ sagði hann.

Framtíðin mikilvægari en stundarhagsmunir

Hann bætti við að það væri „tími til kominn að breyta nálgun okkar að friði með því að setja mannréttindi og mannhelgi í fyrsta sæti, með forvarnir að leiðarljósi.“

Í stórum dráttum fordæmdi Guterres skort á „stefnufestu“ og „hlutleysi“ stjórnmála-og viðskiptamanna í ákvarðanatöku gagnvart svartri framtíðarsýn.

„Næsta könnun. Næsta taktíska pólitíska þvæla til að komast til valda. En líka næsta hagsveifla – eða jafnvel hlutabréfaverð daginn eftir. Það að hugsa svona skammt fram í tímann, bara um daginn í dag, er ekki einungis óábyrgt, það er gjörsamlega siðlaust,” bætti hann við.

Guterres lagði áherslu á nauðsyn þess að bregðast við með komandi kynslóðir í huga og ítrekaði ákall sitt um „róttæka umbreytingu“ á fjármálum heimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert