Foreldrarnir eyðilagðir eftir árásina

Hákarl.
Hákarl. Ljósmynd/Colourbox

16 ára ástralska stúlkan sem lést eftir að hafa orðið fyrir hákarlaárás í vesturhluta Ástralíu á laugardaginn hét Stella Berry.

Hún var á sjóskíðum með vinum sínum þegar hún stökk ofan í ána til að synda með höfrungum og varð þá fyrir árásinni, að sögn lögreglunnar.

Í yfirlýsinu sögðust foreldrar hennar vera „eyðilagðir og í miklu áfalli“.

Matt og Sophie Berry sögðu að dóttir þeirra hafi verið „lífleg og hamingjusöm stúlka“ sem elskaði vatnið og listir, að því er BBC greindi frá. 

„Hún var umhyggjusöm manneskja og góður vinur margra...falleg og ástrík stóra systir og besta dóttir sem við hefðum getað beðið um.“

Yfirvöld rannsaka hvers kyns hákarl réðst á Berry en líklegt er talið að um nautháf hafi verið að ræða.

Atvikið varð í ánni Swan í borginni Perth og segja sérfræðingar óvenjulegt að hákarlar séu þar á sveimi. Þetta er í fyrsta sinn í 100 ár sem hárkarl verður manneskju að bana í ánni.

Tveir fórust í hákarlaárásum í Ástralíu árið 2021 og sjö árið 2020.

mbl.is