Hneig niður í héraðsdómi

Johny Vassbak hefur haldið sakleysi sínu fram frá handtökunni í …
Johny Vassbak hefur haldið sakleysi sínu fram frá handtökunni í september 2021 en framfarir í erfðarannsóknum gerðu það að verkum að einn blóðdropi á sokkabuxum, auk framburðar vitna, varð honum að falli. Ljósmynd/Úr einkasafni

Johny Vassbak, sakborningurinn í voveiflegu manndrápsmáli Birgitte Tengs á Karmøy í Noregi 6. maí 1995, hneig niður í Héraðsdómi Haugalands og Sunnhörðalands í Haugesund í morgun þegar hann var dæmdur í 17 ára fangelsi fyrir að ráða Tengs af dögum fyrir tæpum 30 árum og skilja lík hennar eftir við Gamle Sundsveg, skammt frá heimili hennar.

„Við erum meðvituð um niðurstöðuna og að skjólstæðingum okkar hafa verið dæmdar hæstu bætur sem norsk lög leyfa fyrir þá þjáningu sem þeir hafa liðið í 28 ár,“ segir John Christian Elden, réttargæslulögmaður foreldra Tengs, í samtali við mbl.is eftir dómsuppkvaðningu.

„Hvort þessi dómsniðurstaða verður svo hin endanlega vitum við ekki enn sem komið er og skjólstæðingarnir bíða þess sem verða vill,“ segir Elden enn fremur en foreldrum Tengs voru dæmdar 600.000 norskar krónur hvoru um sig, jafnvirði 8,4 milljóna íslenskra króna, í bætur úr hendi Vassbaks, samtals 16,8 milljónir. Elden ræddi ítarlega um mál Tengs og fleiri sakamál á ferli hans við Morgunblaðið í desember.

Eins og mbl.is hefur fjallað um bárust böndin að Johny nokkrum Vassbak eftir að kaldmálahópur norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos komst að þeirri niður­stöðu árið 2016 að ástæða væri til að hefja rann­sókn máls­ins á ný. Var Vassbak handtekinn í september 2021 en í krafti framfara í erfðarannsóknum í sakamálum var nú hægt að tengja hann við Tengs gegnum einn lítinn blóðdropa á sokkabuxum sem hún klæddist daginn örlagaríka.

Fjölskipaður héraðsdómur var einróma í dómsorði sínu um 17 ára fangelsi en gera þurfti hlé á þinghaldinu í morgun þegar Vassbak hneig niður við lestur dómsins. Hefur hann haldið sakleysi sínu fram frá upphafi og hélt því fram að fundum þeirra Tengs hefði aldrei borið saman en framburður fjölda vitna benti þó til annars.

Dómurinn er 101 blaðsíða og er talið nær öruggt að honum verður áfrýjað enda var fyrir fram búið að taka frá tíma fyrir málið í Lögmannsrétti Gulaþings. Er þar reiknað með upphafi meðferðar 4. september í haust.

VG

NRK

TV2

Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 …
Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 og gekk rannsókn málsins á afturfótunum frá upphafi. Frændi hennar var dæmdur fyrir ódæðið árið 1997 en sýknaður í áfrýjunarmáli 1998. Liðu svo rúmir tveir áratugir þar til annar maður var handtekinn. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert