Rushdie tjáir sig í fyrsta sinn eftir árásina

Rushdie segist setjast niður til að skrifa, en úr því …
Rushdie segist setjast niður til að skrifa, en úr því verði blanda af tómleika og rusli, sem hann eyði síðan degi síðar. AFP/Joel Saget

Breski rithöfundurinn Salman Rushdie segist eiga í miklum erfiðleikum með að skrifa eftir að hann var stunginn í New York-ríki í Bandaríkjunum í ágúst.

Rushdie segir frá þessu í viðtali við New Yorker, í fyrsta skipti sem hann tjáir sig opinberlega eftir árásina.

„Þú veist að það er til eitthvað sem heitir áfallastreituröskun,“ segir Rushdie við blaðamann.

„Ég hef átt mjög, mjög erfitt með að skrifa. Ég sest niður til að skrifa, og ekkert gerist. Ég skrifa, en úr því verður blanda af tómleika og rusli, efni sem ég skrifa og eyði degi seinna. Ég er enn á þeim stað í rauninni,“ segir Rushdie.

Rushdie missti sjón á öðru auga og hreyfigetu annarrar handar eftir ráðist var að honum í New York í Bandaríkjunum fyrir tveimur mánuðum.

Hefur verið betri

Rushdie sagði blaðamanni New Yorker að hann ætti einnig í líkamlegum erfiðleikum með að skrifa eftir að hann var stunginn.

„Eins og þú sérð eru stóru meiðslin nokkurn vegin gróin. Ég finn fyrir þumalfingrinum og vísifingri og í neðri helmingi lófans. Ég er í mikilli sjúkraþjálfun á hendinni og mér er sagt að mér gangi mjög vel,“ segir Rushdie.

„Ég hef verið betri. En miðað við hvað gerðist, þá hef ég það ekki svo slæmt.“

Veit ekki hvort hann hafi gert mistök

Bók Rushdie, Söngvar Satans, olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1988 og fékk Rushdie fjölmargar líflátshótanir vegna ásakana um guðlast en bókin er gagnrýnin á múhameðstrú og er bönnuð víða um heim.

Ayatollah Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, fyrirskipaði að Rushdie skyldi líflátinn árið 1989. Árið 1998 lýsti ríkisstjórn Íran því þó yfir að hún ætlaði ekki að framfylgja dómnum. 

Blaðamaður spurði Rushdie hvort hann teldi sig hafa gert mistök síðustu ár með að slaka á verðinum varðandi mögulegar árásir á sig.

„Ég spyr sjálfan mig að þeirri spurningu, og ég veit ekki svarið við henni,“

Kennir árásamanninum um

Hadi Matar veittist að Rushdie þegar hann var að fara halda fyrirlestur í Chautauqua-stofnuninni í New York hinn 12. ágúst. Stakk hann rithöfundinn meðal annars í hálsinn.

„Ég kenni honum um,“ svarar Rushdie spurningu um hverjum árásin sé að kenna.

mbl.is