Hefja afplánun á lögreglustöðvum vegna plássleysis

Shrewsbury-fangelsinu í Shropshire var lokað árið 2013 og stendur nú …
Shrewsbury-fangelsinu í Shropshire var lokað árið 2013 og stendur nú opið ferðamönnum en á staðnum hafði verið fangelsi frá árinu 1793 þótt upprunalega byggingin sé ekki sú sem hér sést. Afplánunarrými eru nú af skornum skammti á Englandi en verið að byggja 20.000 ný. Ljósmynd/Wikipedia.org/Nabokov

Ófremdarástand ríkir nú í fangelsismálum í norðurhluta Englands og West Midlands vegna hörguls á fangelsisrými og stefnir nú í að dæmdir afbrotamenn þurfi á næstu vikum að hefja afplánun sína í fangaklefum á lögreglustöðvum sem aðeins eru ætlaðir til skammtímavistunar.

Hefur dómsmálaráðuneytið veitt lögregluyfirvöldum framangreindra landshluta fjórtán daga frest til að hafa klefa á lögreglustöðvum reiðubúna fyrir afplánunarfanga en ríkisstjórnin lagði undir lok árs í fyrra fram beiðni um 400 slíka klefa til bráðabirgðanota.

Kemur þessi húsnæðisekla til af mikilli og örri fjölgun brotamanna á leið í afplánun, nú síðast eftir áramótin, en að sögn dómsmálaráðuneytisins standa byggingarframkvæmdir nýrra fangelsa með samtals 20.000 afplánunarrými nú yfir og muni það fyrsta standa tilbúið með vorinu.

1.500 rými þó laus

Gagnrýnisraddir heyrast nú um að vandamálið hafi verið fyrirsjáanlegt auk þess sem bráðabirgðanotkun klefa lögreglustöðvanna stofni hvort tveggja almenningi sem lögreglu í hættu.

Fullvissar Damian Hinds dómsmálaráðherra fjölmiðla og almenning um að landið sé ekki „uppiskroppa með fangaklefa“ og sú neyðarráðstöfun að fá klefa lögreglunnar að láni gefi engan veginn til kynna að dómsmálayfirvöld landsins séu ekki í stakk búin til að gera raunhæfar áætlanir.

Á föstudaginn var voru fangar á Englandi 83.188 en skráð afplánunarrými 84.607 svo ætla mætti að um 1.500 rými væru þá til reiðu fyrir nýja vistmenn réttarvörslukerfisins. Bentu embættismenn þá á að ávallt þyrfti ákveðinn fjöldi lausra rýma að vera fyrir hendi svo reka mætti fangelsin af öryggi og bregðast við ófyrirsjáanlegum atvikum.

Þeir virðast hins vegar ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort skyndileg fjölgun brotamanna á leið í afplánun um 800 á tveggja mánaða tímabili teljist til ófyrirsjáanlegra atvika.

BBC

BBC (báðu um 400 klefa (nóvember 2022))

Londonnewsonline

Daily Express

mbl.is