Hugðust myrkva Baltimore

Manneskja, sem talin er vera Sarah Clendaniel, öðru nafni @kali1889, …
Manneskja, sem talin er vera Sarah Clendaniel, öðru nafni @kali1889, heldur á skotvopni á ljósmynd sem alríkislögreglan telur meðal gagna málsins. Ljósmynd/FBI

Nýnasistaleiðtoginn Brandon Russell sætir nú ákæru bandarísks saksóknara fyrir að hafa lagt á ráðin um skemmdarverk á raforkudreifikerfi borgarinnar Baltimore en meint vitorðsmanneskja hans, Sarah Clendaniel, er einnig ákærð í málinu.

Það var alríkislögreglan FBI sem komst á snoðir um ráðabruggið með aðstoð uppljóstrara og voru ákærðu handtekin í síðustu viku. Russell er stofnandi og innsti koppur í búri nýnasistasamtakanna Atomwaffen Division sem hefur það einfalda markmið að „valda hruni siðmenningarinnar“ eftir því sem mannréttindasamtökin Southern Poverty Law Center greina frá, en þau sérhæfa sig í að fylgjast með haturshópum í Bandaríkjunum.

Herbergisfélaginn handtekinn fyrir manndráp

Russell hefur áður komist í kast við lögin en hann hlaut fimm ára dóm fyrir að hafa í fórum sínum „óskráð eyðileggingartól“ og hafa geymt sprengiefni við ófullnægjandi aðstæður. Var hann enn á reynslulausn eftir afplánun hluta þeirrar refsingar þegar hann var handtekinn í síðustu viku.

Telur FBI fyrirhugaða árás Russell og Clendaniel á Baltimore sprottna af kynþáttahatri en 62 prósent íbúa borgarinnar eru blökkumenn samkvæmt manntali.

„Clendaniel og Russell lögðu á ráðin um og hófu aðgerðir sem gengu út á að gera skotárásir á fjölda raforkudreifistöðva á Baltimore-svæðinu með það fyrir augum að „leggja alla borgina gjörsamlega í eyði“ en var settur stóllinn fyrir dyrnar,“ sagði Erek Barron, saksóknari í Maryland-ríki, á blaðamannafundi um málið.

Skotfæri sem ætlað er að hafi átt að nýta við …
Skotfæri sem ætlað er að hafi átt að nýta við árásir á rafstöðvar í Baltimore og víðar. Ljósmynd/FBI

Grunsemdir beindust fyrst að Russell árið 2017 þegar fyrrverandi herbergisfélagi hans var handtekinn fyrir manndráp. Sá ljóstraði því upp við yfirheyrslur að Russell hefði á prjónunum áætlanir um að ráðast á ýmsa innviði, þar á meðal raforkulínur í Flórída.

Var hann þá tekinn höndum og hlaut framangreindan dóm. Það var svo í fyrrasumar sem uppljóstrari alríkislögreglunnar tók að fá dulkóðuð skilaboð frá einhverjum sem kallaði sig „Homunculus“ sem hvatti viðtakandann til að ráðast á rafdreifingarstöðvar.

@kali1889 bætist í hópinn

Mæltist hann til þess að árásirnar ættu sér stað þegar álag á dreifikerfið væri sem mest, þannig, og með fleiri árásum í kjölfarið, mætti valda milljarða dala tjóni. Í janúar á þessu ári bættist svo þriðja manneskja við spjallið, @kali1889, sem lagði það til málanna að skotmörk á borð við Baltimore væru nánast eins og lífæð.

Reyndist sú nýkomna vera Clendaniel en skömmu áður, um jólaleytið, voru skemmdarverk unnin á fjórum orkudreifingarstöðvum í Tacoma í Washington sem orsökuðu rafmagnsleysi hjá 14.000 notendum. Tveir menn voru handteknir í tengslum við þá atburði.

Einnig voru 45.000 án rafmagns í kjölfar samhæfðra skotárása á orkustöðvar í Norður-Karólínu í desember og nokkur skot sem hleypt var af nálægt rafstöð í nágrannaríkinu Suður-Karólínu fáeinum dögum síðar urðu einnig tilefni lögreglurannsóknar.

Reuters

CNN

CNBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert