Íbúar komast ekki heim út af eiturgasi

Ekki er vitað hvað olli því að lestin fór út …
Ekki er vitað hvað olli því að lestin fór út af sporinu fyrir fjórum dögum. AFP

Þúsundir íbúa í East Palestine í Ohio í Bandaríkjunum hafa ekki enn fengið að snúa aftur til síns heima í kjölfar lestarslyss þar sem eitrað gas leystist úr læðingi. Fjórir dagar eru síðan slysið varð. 

Í umfjöllun AFP-fréttastofunnar kemur fram, að yfirvöld hafi m.a. lokað skólum í varúðarskyni í bænum sem liggur skammt frá Pennsylvaníu-ríki.

Tilkynnt hefur verið um lykt og móðu við svæðið þar sem slysið varð. Forsvarsmenn lestarfyrirtækisins Norfolk Southern hafa unnið að því að hreinsa upp svæðið, en þar lak vínylklóríð sem er eitruð gastegund. Enn logar í nokkrum lestarvögnum.

Enn liggur ekki fyrir hvað olli því að lestin fór …
Enn liggur ekki fyrir hvað olli því að lestin fór út af sporinu. AFP

Alls fóru 150 vagnar út af sporinu og var ákveðið að rýma stórt svæði í grenndinni. Þá hafa yfirvöld hvatt íbúa sem búa þar fyrir utan að halda sig innandyra sé þess kostur.

Slökkviliðið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem íbúar eru beðnir um að fara aðeins út ef brýna nauðsyn beri til.

Yfirvöld segja enn fremur að gasið, sem var að finna í fimm lestarvögnum, sé óstöðugt og hætt sé við sprengingu. Til stendur að losa gasið rólega í þeim tilgangi að brenna það, en tekið er fram að það sé stórhættulegt að anda því að sér.

Gastegundin, sem er litlaus, er notuð í framleiðslu á plastvörum og plastumbúðum. Þegar það er brennt þá getur orðið til fosgen, sem er baneitrað efni sem var notað í efnavopn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þá liggur ekki enn fyrir hvers vegna vagnarnir fóru út af sporinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert