Kona sem virðist hafa gufað upp

Búið er að setja plaköt með mynd af Nicolu Bulley …
Búið er að setja plaköt með mynd af Nicolu Bulley rétt við ána sem lögregla telur að hún hafi dottið ofan í. AFP/Paul Ellis

Sérhæfðir kafarar leituðu í gær ummerkja um týnda konu í árfarvegi, rúmri viku eftir að hún virtist hafa gufað upp án nokkurra skýringa. Sími konunnar var enn stilltur inn á vinnutengt fjöldasímtal frá afskekktum stað í norðurhluta Englands.

Fjölskylda og vinir hinnar 45 ára Nicolu Bulley hafa véfengt kenningu lögreglunnar um að hvarf hennar hafi verið slys og að hún hafi fallið í ána. Þau segja að ekkert bendi til þess að tilgáta lögreglunnar standist og aðstandendur séu á milli vonar og ótta meðan ekkert hefur spurst til hennar.

Yfirlitsmynd yfir ána í bænum St. Michaels í Wyre þar …
Yfirlitsmynd yfir ána í bænum St. Michaels í Wyre þar sem Nicola Bulley hvarf. AFP/Paul Ellis

Síðast sást til Bulley, sem starfar við veðlánaráðgjöf, fyrir tíu dögum þegar hún gekk með hundinn sinn eftir árbakkanum eftir að hafa skutlað tveimur ungum dætrum sínum í skólann eins og venjulega í þorpinu St. Michael's í Wyre í norðvesturhluta Lancashire.

Skömmu síðar fannst hundurinn hennar þar sem hann hljóp laus „í æstu ásigkomulagi“ og vakti athygli vegfaranda sem hafði samband við lögreglu.  

Þegar dularfulla mannshvarfið rataði í fréttirnar á föstudag sagðist lögreglan vera að vinna út frá þeirri forsendu að Bulley hefði dottið í ána.

„Okkar helsta vinnutilgáta er sú að Nicola hafi því miður fallið í ána, að ekki sé um að ræða þriðja aðila eða glæpsamlega aðkomu að málinu og að þetta sé sorglegt mál um týnda manneskju,“ sagði yfirlögregluþjónninn Sally Riley sem stýrir rannsókn lögreglunnar.

Tvö börn sem bíða móður sinnar

Stígurinn liggur meðfram bröttum árbakkanum en ættingjar benda á að það vanti fótspor eða spor í leðjuna til að styðja þessa tilgátu lögreglunnar.

Foreldrar hennar óttast að Bulley hafi hugsanlega verið rænt.

Sérhæfðir kafarar hafa leitað hennar í ánni í dag, en …
Sérhæfðir kafarar hafa leitað hennar í ánni í dag, en ekkert hefur fundist. AFP/Paul Ellis

Faðir hennar, Ernest, sem er 73 ára, sagði í síðustu viku að ekkert benti til þess að dóttir hans hefði fallið í ána og hann óttaðist að einhver hefði „náð henni“.

„Hér eru tvö ung börn sem bíða eftir því að mamma þeirra komi aftur heim,“ sagði hann.

Systir Bulley, Louise Cunningham, bætti við: „Einhver hlýtur að vita eitthvað. Fólk gufar ekki bara upp.“

„Skuggalegt svæði“

Réttarsérfræðingurinn Peter Faulding, framkvæmdastjóri Specialist Group International, sagði að hátæknihljóðsjáin sem fyrirtæki hans notaði geri rannsakendum kleift að sjá „hverja einustu spýtu og stein sem liggur í árfarveginum“.

AFP/Paul Ellis

Niðurstaða leitarinnar myndi gera lögreglu kleift að staðfesta það eða útiloka „ef Nicola er í raun í þessari á,“ sagði hann. 

Vinkona Emmu White sagði í samtali við BBC að óvissan væri fjölskyldunni sérstaklega erfið.

„Eftir að lögreglan setti fram þá tilgátu að Nicola hefði lent í ánni þurfum við að fá einhverjar sannanir til að styðja það,“ sagði hún.

Bulley var virk á samfélagsmiðlum og í nóvember skrifaði hún um staðinn þar sem hún sást síðast þetta:

„Mikil þoka og köld ganga,“ skrifaði hún og bætti við að svæðið væri „skuggalegt“.

mbl.is