Yfir 4.300 manns fundist látnir

Björgunarsveitir að störfum í tyrknesku borginni Kahramanmaras.
Björgunarsveitir að störfum í tyrknesku borginni Kahramanmaras. AFP/Adem Altan

Yfir 4.300 manns hafa fundist látnir eftir jarðskjálftann sem gekk yfir Tyrkland og Sýrland í gær. 

Björgunarsveitir notuðu berar hendur í frostinu í nótt til að leita að eftirlifendum í rústum þeirra þúsunda bygginga sem hrundu í jarðskjálftanum og eftirskjálftum hans.

Lögreglumaðurinn Zekeriya Yildiz faðmar dóttur sína eftir að henni var …
Lögreglumaðurinn Zekeriya Yildiz faðmar dóttur sína eftir að henni var bjargað úr húsarústum í Hatay í Tyrklandi. AFP/Bulent Kilic

Að sögn viðbragðsaðila hafa yfir 5.600 byggingar hrunið til grunna í þó nokkrum borgum, þar á meðal margra hæða íbúðabyggingar sem hrundu þegar fólk var í fastasvefni.

„Við héldum að þetta væri heimsendir,“ sagði Melisa Salman, 23 ára fréttakona í borginni Kahramanmaras í suðausturhluta Tyrklands. „Við höfum aldrei upplifað annað eins.“

Björgunarsveitir að störfum í þorpinu Besnaya í Idlib-héraði í Sýrlandi.
Björgunarsveitir að störfum í þorpinu Besnaya í Idlib-héraði í Sýrlandi. AFP/Omar Haj Kadour

Hjálparstofnun Tyrklands, AFAD segir að 2.921 hafi fundist látinn þar í landi.

Óttast er að tala látinna munu hækka mikið og telja embættismenn hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að allt að 20 þúsund manns gætu hafa farist í Tyrklandi og Sýrlandi.

mbl.is