Ók strætisvagni inn í dagvist og drap tvö börn

Maðurinn ók bílnum í gegnum vegg dagvistunarinnar þar sem fjölmörg …
Maðurinn ók bílnum í gegnum vegg dagvistunarinnar þar sem fjölmörg börn voru. AFP

Tvö börn létust þegar maður keyrði strætisvagn í gegnum vegg á dagvist fyrir börn nærri borginni Montreal í Kanada í dag. Ökumaðurinn var handtekinn á staðnum grunaður um manndráp en talið er að maðurinn hafi vísvitandi ekið inn í húsið.

Þó nokkur börn voru föst undir strætisvagninum þegar lögregla og viðbragðsaðilar komu á vettvang. Eitt barn var úrskurðað látið á staðnum en annað lést í sjúkrabíl á leiðinni á spítala á svæðinu. 

Sex börn særðust en eru ekki talin í lífshættu.

Hvít blóm voru lögð aftan á lögreglubíl á vettvangi í …
Hvít blóm voru lögð aftan á lögreglubíl á vettvangi í virðingarskyni. AFP

Yfirbugaði manninn

Faðir eins barnsins yfirbugaði ökumanninn fyrir utan strætisvagninn. Að sögn sjónarvotts var ökumaðurinn hálfnakinn. Ökumaðurinn er 51 árs og hefur aldrei brotið af sér áður. 

Lögreglan á svæðinu rannsakar nú málið en talið er að voðaverkið hafi verið framið af ásetningi þó að enn sé óljóst hvað vakti fyrir manninum.

mbl.is