Sjaldséð dóttir Kims í stúkunni

Ein langdrægu burðarflauganna sem sýndar voru á Kim Il-sung-torginu í …
Ein langdrægu burðarflauganna sem sýndar voru á Kim Il-sung-torginu í Pyongyang í gær. Greinendur telja að fjöldi slíkra flauga, sem skotið er samtímis, gæti komið eldflaugavarnakerfum Bandaríkjanna í opna skjöldu. AFP/KCNA

Yfirvöld hernaðarmála í Norður-Kóreu sýndu í gær mesta fjölda langdrægra burðarflauga sem fram til þessa hefur verið til sýnis á reglulegum hersýningum þar í landi og vöktu með því ugg í brjósti hernaðarlegra greiningaraðila á Vesturlöndum þar sem „fræðilega séð“ gætu flaugarnar náð til skotmarka á bandarískri grundu. Athygli vakti að Kim Ju-ae, tíu ára gömul dóttir Kims Jong-un, var viðstödd sýninguna með foreldrum sínum.

Telja greinendurnir að flaugarnar gætu komið kjarnorkuflaugavarnakerfum Bandaríkjanna í opna skjöldu væri mörgum þeirra skotið samtímis, hverri með marga kjarnaodda innbyrðis. Gæti þá komið til þess að kerfið hefði ekki burði til að skjóta allar flaugarnar niður og einhverjar þeirra gætu þar með náð því sem til væri skotið.

Nýr skotpallur einnig til sýnis

Norðurkóreskir fjölmiðlar fjölluðu um sýninguna í dag og mátti þar sjá – að því er virtist – tugi langdrægra flauga á vögnum sem ekið var um Kim Il-sung-torgið í höfuðborginni Pyongyang ásamt hundruðum marsérandi hermanna.

Sáu einhverjir greinendanna ekki betur en einnig væri til sýnis nýr skotpallur ætlaður langdrægum flaugum með eldsneyti í föstu formi sem aflgjafa en undirbúningur skots slíkra flauga tekur skemmri tíma en flauga með eldsneyti í fljótandi formi. Hins vegar hafa Norður-Kóreumenn aldrei framkvæmt heppnað tilraunaskot langdrægrar flaugar með fast eldsneyti í stjórnartíð núverandi leiðtoga.

Þjóðarleiðtoginn Kim Jong-un ásamt dótturinni Kim Ju-ae og eiginkonunni Ri …
Þjóðarleiðtoginn Kim Jong-un ásamt dótturinni Kim Ju-ae og eiginkonunni Ri Sol-ju í Pyongyang í gær. AFP/KCNA

Ankit Panda, sérfræðingur í kjarnorkustefnu ríkja við Carnegie-alþjóðafriðarstofnunina, segir breska ríkisútvarpinu BBC þó, að reikna megi með slíkum tilraunaskotum næstu mánuði en Norður-Kóreumenn hafa aldrei framkvæmt eins mörg tilraunaskot kjarnaflauga og í fyrra, þrátt fyrir viðskiptaþvinganir af hálfu Sameinuðu þjóðanna.

„Sprengju fyrir sprengju“

Greindi ríkisfréttastofa Norður-Kóreu frá því að hersýningin sýndi svo ekki yrði um villst mátt landsins og megin til að mæta andstæðingum sínum „sprengju fyrir sprengju, orrustu fyrir orrustu“ eins og það var orðað.

Kim Ju-ae, tíu ára gömul dóttir þjóðarleiðtogans og konu hans Ri Sol-ju, var sem fyrr segir viðstödd sýninguna og birtu ríkisfjölmiðlar myndir af stúlkunni í viðhafnarstúku sýningargesta þar sem hún sat ásamt foreldrum sínum og æðstu herforingjum landsins og vakti það athygli að Ju-ae sat þar í öndvegi, í því sæti sem faðir hennar hefur iðulega vermt við hersýningar.

BBC
CNN
Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert