Þrír látnir á fjórum dögum á Aconcagua

Aconcagua í Arg­entínu, sem er hæsta fjall Am­er­íku, er 6.961 …
Aconcagua í Arg­entínu, sem er hæsta fjall Am­er­íku, er 6.961 metra hátt. Ljósmynd/Colourbox

Þrír fjallgöngumenn hafa látið lífið í vikunni við að klífa hæsta fjall Ameríku, Aconcagua sem eru tæpir 7.000 metrar að hæð, að sögn yfirvalda í í Argentínu. Um er að ræða tvo Bandaríkjamenn og einn Norðmann.

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að Bandaríkjamaðurinn Ayn Vincent Day hafi látið lífið í gær eftir að hafa farið gegn ráðleggingum leiðsögumanns. Day var 41 árs gamall.

Á laugardag lést hinn 62 ára gamli Moi Øystein frá Noregi, en hann var fyrsti maðurinn á nústandandi klifurtímabili, sem hófst í desember, sem lætur lífið á fjallinu. Að sögn yfirvalda varð hann veikur á gönguleið sem kallast La Cueva og er í um 6.000 metra hæð.

Daginn eftir lést Bandaríkjamaðurinn John Michael Magnes, sem var 58 ára gamall fyrrverandi hermaður. Hann náði að komast í Independencia-búðirnar í um 6.300 metra hæð.

Aconcagua stendur við landamæri Argentínu við Chile og er hæsta fjall heims utan Asíu. Það er hluti tindanna sjö, sem mestu fjallagarpar heims gera atlögu að og reyna að sigrast á.

Fimm aðrir fjallgöngumenn hafi látist í Argentínu á þessu klifurári að sögn þarlendra fjölmiðla. Þar af eru fjórir erlendir ríkisborgarar sem létust við klifur í El Chalten, sem er í Patagoniu-héraði Santa Cruz, sem er um 2.300 km frá argentínsku höfuðborginni Buenos Aires.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert