Þarf að bera vitni gegn Trump

Mike Pence og Donald Trump.
Mike Pence og Donald Trump. AFP

Mike Pence, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, hefur verið stefnt af sérstökum saksóknara til að bera vitni í máli gegn Donald Trump sem snýst um aðild forsetans fyrrverandi að árásinni á bandaríska þinghúsið í janúar árið 2021.

Dómsmálaráðuneytið skipaði Jack Smith sem sérstakan saksóknara í málinu, auk þess sem hann rannsakar meðferð Trumps á leynilegum skjölum sem fundust í húsi hans í ríkinu Flórída.

Stefnan „fylgir í kjölfar margra mánaða samningaviðræðna á milli saksóknara og lögmannateymis Pence,“ sagði í frétt ABC News.

Vitnisburður Pence gæti varpað ljósi á ósk Trumps um að koma í veg fyrir staðfestingu Bandaríkjaþings á sigri Joes Bidens í forsetakosningunum.

Trump setti þrýsting á Pence, sem hafði umsjón með málinu á þingi, um að viðurkenna ekki úrslitin en varaforsetinn lét ekki undan kröfum hans.

Pence lýsti því yfir að Trump hefði hegðað sér kæruleysislega þann 6. janúar en neitaði að svara spurningum þingnefndar sem rannsakaði árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert