Vígahnöttur stefnir á jörðina í nótt

Vígahnötturinn verður ekki sjáanlegur hér á Íslandi. Mynd úr safni.
Vígahnötturinn verður ekki sjáanlegur hér á Íslandi. Mynd úr safni.

Þess má vænta að lítill vígahnöttur þeytist utan úr geimnum og inn í andrúmsloftið yfir Norður-Frakklandi og Ermarsundi í nótt.

Þessu greinir Evrópska geimvísindastofnunin frá á Twitter, en Ungverjinn Krisztián Sárneczky uppgötvaði smástirnið fyrir nokkrum klukkustundum.

Ekki talinn hættulegur

Talið er að vígahnötturinn komi til með að brenna upp í lofthjúpi jarðar áður en til þess kæmi að hann lenti á jörðinni, á milli klukkan 2.50 og 3.03 að íslenskum tíma. Ekki er talið að nein ógn stafi af honum.

Vígahnötturinn verður ekki sjáanlegur hér á Íslandi, en þó er líklegt að fólk í Bretlandi, Norður-Frakklandi, Belgíu og Hollandi geti komið auga á hann, skyggnist það eftir honum.

Um er að ræða aðeins sjöunda vígahnött sögunnar sem hefur verið uppgötvaður fyrir fram, að því er segir á vef EarthSky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert