Hagræddu útboði til að útiloka Kínverja

Framkvæmdir við vatnsveitugöng í Ósló, þó ekki þau sem hér …
Framkvæmdir við vatnsveitugöng í Ósló, þó ekki þau sem hér eru til umræðu í Huseby-hverfinu. Ljósmynd/Óslóarborg/Audun Sørsdal

Vatns- og fráveitustofnun Óslóar hagræddi útboði byggingar nýs vatnsveitukerfis borgarinnar í samráði við Þjóðaröryggisstofnun Noregs með það fyrir augum að kínverskt verktakafyrirtæki kæmi ekki nálægt framkvæmdinni.

Voru útboðsskilmálarnir einfaldlega þannig úr garði gerðir að kínverska fyrirtækið gæti aldrei fengið verkið en ástæðan fyrir hagræðingunni var ótti við að Kínverjar kæmu að byggingu lífsnauðsynlegra innviða í höfuðborginni. Þjóðaröryggisstofnun og öryggislögreglan PST hafa af því þungar áhyggjur að rússneskir og kínverskir aðilar kaupi fasteignir, fjárfesti í fyrirtækjum eða næli sér í útboðsverkefni í Noregi sem veiti þeim einhvers konar aðgang að innviðum.

Verði að treysta öllum sem að koma

„Þegar í brýnu slær væri mögulegt að misnota innviði af þessari gerð [vatnsveitukerfi] til að senda norskum yfirvöldum skilaboð frá Kína. Það er því hagur okkar að hafa stjórn á þessu sviði innanlands og geta treyst öllum sem tilheyra aðfangakeðjunni,“ segir Sofie Nystrøm, forstöðumaður Þjóðaröryggisstofnunar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Spurð hvað forkólfar öryggismála óttist að Kínverjar geri við neysluvatn Óslóarbúa svarar Nystrøm því til að hægt sé að hafa áhrif á stýrikerfi veitunnar og enn fremur vekja efasemdir um öryggi neysluvatnsins sem sé til þess fallið að vekja ugg meðal borgarbúa. „Þarna eru úrræði sem ekki eru hernaðarleg en engu að síður hægt að nota til að beita þrýstingi,“ segir hún.

Sofie Nystrøm, forstöðumaður Þjóðaröryggisstofnunar Noregs, kveður óprúttna aðila, sem komið …
Sofie Nystrøm, forstöðumaður Þjóðaröryggisstofnunar Noregs, kveður óprúttna aðila, sem komið geti að verkinu sem verktakar, geta haft áhrif á stýrikerfi veitunnar og vakið efasemdir um öryggi neysluvatnsins. Ljósmynd/Þjóðaröryggisstofnun Noregs, NSM

Öryggislögreglan PST er einnig meðvituð um þá ógn sem stafað geti af innviðum í röngum höndum. Samkvæmt kínverskum lögum sé samstarf við leyniþjónustu ríkisins borgaraleg skylda þar í landi. Þar með geti hvaða löglega fyrirtæki sem er lent í þeirri stöðu að neyðast til að afla upplýsinga gegnum starfsemi innan marka erlends ríkis.

Ýmsum brögðum beitt

Þjóðaröryggisstofnun fékk í fyrra inn á sitt borð um það bil 50 mál sem snerust um ráðgjöf til fyrirtækja sem stríddu við hugsanlegar áskoranir á vettvangi öryggismála. Snerust þau mál oftast um að ríki á borð við Rússland og Kína væru með einhverjum hætti, oft óbeinum, komin í þá stöðu að gera tilboð í verk í alþjóðlegum útboðum eða reyna að kaupa eignir eða koma á öðrum fjárfestingum.

„Þarna getur verið um að ræða fjárfestingar í eignum í námunda við hernaðarmannvirki,“ nefnir Nystrøm sem dæmi, „eins undirverktakafyrirtæki sem keypt eru til að komast inn í mikilvægar birgðakeðjur. Þar getur til dæmis verið um að ræða hergögn, þetta er mjög breitt svið og á efnahagssviðinu er ýmsum brögðum beitt, svo sem í tengslum við útboð.“

Djúpt í berggrunninum undir Huseby-hverfinu í Ósló stendur risastór bor sem bora mun göng 19 kílómetra leið í gegnum fjall í átt að Holsfjorden. Gegnum þau mun vatn streyma sem svo er síað og meðhöndlað í vinnslustöð í Huseby. Jan Tobiassen er forstöðumaður þróunarmála hjá Vatns- og fráveitustofnun Óslóar og ber enn fremur ástand á öryggismálum tengdum nýju vatnsveitunni.

„Þegar ný vatnshreinsistöð er byggð þurfum við að gæta að öryggismálum frá fyrstu byrjun. Við þurfum að gæta þess að ekki verði af ásettu ráði byggðir gallar inn í kerfið sem síðar megi svo nota til að vinna skemmdarverk, til dæmis með sprengingu,“ segir Tobiassen.

Til þess fallið að skaða orðspor Noregs

Hann kveður Þjóðaröryggisstofnun hafa bent á fyrirtæki sem hugsanlega væri á leiðinni í tilboð og hefði tengsl við kínversk stjórnvöld. Þetta hefði kveikt viðvörunarljós og útboðsgögn því gerð þannig úr garði, með ákveðnum ófrávíkjanlegum hæfniskröfum, að kínverska fyrirtækið gæti aldrei fengið þann hluta verksins sem það hugsanlega hefði getað gert tilboð í.

Aðspurður segir Tobiassen ráðstöfun stofnunar hans fullkomlega löglega en hún hefur hins vegar vakið nokkurn urg í kínverska sendiráðinu í Ósló sem skrifar NRK og lýsir þar yfir hneykslun yfir þeirri meðferð sem kínverska fyrirtækið sæti. Þar sé á ferðinni hnitmiðuð og mjög óréttlát markaðsstýring.

Kveðst sendiráðið í skrifum sínum vonast til þess að norsk yfirvöld hafi beinhörð sönnunargögn þess efnis að fyrirtækið kínverska hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Að öðrum kosti muni aðgerðirnar eingöngu til þess fallnar að brjóta niður traust gagnvart erlendum fyrirtækjum á norskum markaði auk þess að skaða orðspor Noregs sem frjáls og opins samfélags. Að lokum sé það alrangt að þvinga megi kínverska borgara og fyrirtæki til samstarfs við leyniþjónustu ríkisins.

NRK

TV2 (nýtt áhættumat PST)

Dagbladet (kínverski skiptineminn við NTNU)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert