Norðmenn æfir yfir kókaínpoka

Áhrifavaldurinn Sophie Elise Isachsen á sér tæplega 600.000 fylgjendur á …
Áhrifavaldurinn Sophie Elise Isachsen á sér tæplega 600.000 fylgjendur á Instagram og plastpokinn í hendi vinkonunnar hefur vakið gríðarlega athygli í Noregi og verið kveikjan að rúmlega 2.000 kvörtunum til ríkisútvarpsins NRK. Pokann má sjá á mynd neðar í fréttinni. Ljósmynd/Instagram

Einn annálaðasti áhrifavaldur Noregs, Sophie Elise Isachsen, situr í súpunni eftir óheppilega myndbirtingu á samfélagsmiðlinum Instagram um helgina þar sem þær vinkonur mynduðu sig í hringiðu skemmtanalífsins en hirtu ekki um að hylja poka með hvítu efni fyrir glöggu auga myndavélarinnar.

Rúmlega 2.000 kvartanir hafa borist norska ríkisútvarpinu NRK síðan á sunnudag og er þar um að ræða þriðju mestu skæðadrífu kvartana í sögu stofnunarinnar sem er í miklu samstarfi við áhrifavaldinn og sýnir hlaðvarpsþátt hennar, Sophie og Fetisha, í dagskrá sinni en hlustendur hans eru jafnan 60.000. Hefur Trude Drevland, sem sæti á í útvarpsráði, þegar farið þess á leit að ráðið taki málið fyrir.

Isachsen í hlaðvarpsþætti sínum Sophie og Fetisha á NRK.
Isachsen í hlaðvarpsþætti sínum Sophie og Fetisha á NRK. Skjáskot/NRK Radio

Ekki þykir málið heppilegra fyrir konungshöllina norsku þar sem vinkonan á myndinni, sem heldur á pokanum, er Nora Haukland, einnig áhrifavaldur en auk þess sigurvegari í raunveruleikaþættinum Love Island árið 2020 og kærasta Mariusar Borg Høiby sem er sonur Mette-Marit krónprinsessu. Hefur konungshöllin ekki tjáð sig um málið fram til þessa.

„Skemmtilegra þegar maður kærir sig kollóttan“

Isachsen á sér 580.000 fylgjendur á Instagram og þótt hún hafi verið fljót að fjarlægja myndina eftir birtingu hefur hún farið sem eldur í sinu um alla þá samfélagsmiðla sem norskur almenningur notar og margir vitnað í orðin sem áhrifavaldurinn skrifaði með myndbirtingunni, „Livet blir cirka en milliard ganger morsommere når man bare gir faen“ eða „Lífið verður um það bil milljarði sinnum skemmtilegra þegar maður bara kærir sig kollóttan“.

Snorre Valen, formaður útvarpsráðs, segir að ráðið meti það sjálft fyrir hvern fund hvaða mál það tekur til umfjöllunar en næsti fundur ráðsins er 9. mars. „Sjálfur tek ég ekki afstöðu til mála fyrr en þau eru komin á borðið hjá mér, þegar um mál er að ræða sem vakið hafa mika athygli finnst mér mjög gott að fylgja framgangi málsins,“ segir Valen við NRK.

Mynd­in af vin­kon­un­um hef­ur farið sem eld­ur í sinu um …
Mynd­in af vin­kon­un­um hef­ur farið sem eld­ur í sinu um sam­fé­lags­miðla Norðmanna og mikið verið þar lagt út af um­mæl­um Isach­sen, „Lífið verður um það bil millj­arði sinn­um skemmti­legra þegar maður bara kær­ir sig koll­ótt­an“. Ljósmynd/Instagram

Þá spyrja fréttamenn NRK umsjónarmenn afþreyingardeildar stofnunarinnar, NRK Underholdning, nokkurra spurninga, svo sem hve langan samning Isachsen hafi við deildina, hve marga þætti ætlunin sé að framleiða og hvað þurfi til að samningur við hana sé framlengdur.

Rune Lind, dagskrárstjóri afþreyingardeildarinnar, svarar skriflega og segir samning og aðra pappíra tengda áhrifavaldinum falla undir ritstjórnar- og dagskrárhluta ríkisútvarpsins. „Slík skjöl á enginn kröfu um að fá að sjá,“ svarar hann.

Einstaka sinnum yfir 100 kvartanir

Það var svo í gær sem afþreyingardeildin ákvað að aðhafast ekki í málinu. „Við höfum rætt við Sophie Elise. Þessi tiltekna mynd er ekki tekin í tengslum við NRK og hún birtist ekki á neinum miðli útvarpsins. Þar með er ekki rétt að við séum að tjá okkur um málið,“ skrifaði Christina Rezk Resar, starfandi dagskrárstjóri deildarinnar, í tölvupósti til fréttastofu stofnunarinnar í gær.

Erik Skarrud, ritari útvarpsráðs, vill ekki tjá sig um hvort ráðið taki málið fyrir eður ei en játar að sjaldgæft sé að ráðið fái svo margar kvartanir til sín á svo skömmum tíma. „Það gerist örfáum sinnum á ári að meira en hundrað kvartanir berast,“ segir Skarrud um á þriðja þúsund kvartanir sem borist hafa í kjölfar myndbirtingar Isachsen á Instagram.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

Dagbladet

Dagens

mbl.is

Bloggað um fréttina