Ræðir við Xi um loftbelginn

Xi Jinping og Biden á samsettri mynd.
Xi Jinping og Biden á samsettri mynd. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að ræða við Xi Jinping, forseta Kína, um loftbelg sem bandaríski flugherinn skaut niður og bandarísk stjórnvöld segja að hafi verið hátæknivæddur kínverskur njósnabelgur.

„Ég reikna með því að tala við Xi forseta og ... við ætlum að komast til botns í þessu máli,“ sagði Biden um atvikið sem átti sér stað fjórða febrúar.

Hann lagði áherslu á að Bandaríkin séu „ekki að leitast eftir nýju köldu stríði“, en bætti við að hann ætlaði „ekki að biðjast afsökunar á því að skjóta niður þennan loftbelg“.

„Við bregðumst alltaf við til að vernda hagsmuni Bandaríkjamanna og öryggi bandarísks almennings,“ sagði Biden.

Joe Biden Bandaríkjaforseti í gær.
Joe Biden Bandaríkjaforseti í gær. AFP/Mandel Ngan

Bandaríkin hafa verið í viðbragðsstöðu síðan stór hvítur loftbelgur frá Kína sást á flugi yfir háleynilegum stöðum sem geyma kjarnorkuvopn. Hann var á endanum skotinn niður undan austurströnd landsins.

Eftir það breytti bandaríski herinn radarkerfi sínu til að koma auga á smærri hluti og uppgötvaði í framhaldinu þrjá hluti til viðbótar sem Biden lét skjóta niður. Einn var yfir ríkinu Alaska, annar yfir Kanada og sá þriðji yfir Lake Huron við ríkið Michigan.

Biden gerði greinarmun á kínverska loftbelgnum og hlutunum þremur. „Við vitum ekki almennilega hvaða þrír hlutir þetta voru,“ sagði Biden.

Hann bætti við að „sem stendur er ekkert sem bendir til þess að þeir tengist kínverska njósnabelgs-verkefninu“ og sagði jafnframt að samkvæmt bandarísku leyniþjónustunni séu þeir „mjög líklega loftbelgir sem tengjast einkafyrirtækjum“ eða rannsóknarverkefnum.

mbl.is