Spilling og sleifarlag í Tyrklandi

Ayşe Mehmet Polat-lúxusíbúðakjarninn er ekki svipur hjá sjón. Fjórar af …
Ayşe Mehmet Polat-lúxusíbúðakjarninn er ekki svipur hjá sjón. Fjórar af sex margra hæða byggingum á einu dýrasta svæði Gaziantep hrundu eins og spilaborgir í jarðskjálftanum. Hefur verktakinn nú verið handtekinn, auk fjölda annarra verktaka, í kjölfar þess er hamfarirnar afhjúpuðu alvarlega handvömm og hirðuleysi við byggingu, vottun og frágang óþekkts fjölda húsa. Ljósmynd/Twitter

„Þetta byrjar hjá verktakanum,“ segir Yunus Emre, tyrkneskur tónlistarmaður, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC og á við ábyrgðina á því að fjórar af sex byggingum Ayşe Mehmet Polat-lúxusíbúðakjarnans í Gaziantep hrundu eins og spilaborgir í jarðskjálftanum á mánudaginn í síðustu viku.

Fimm manna fjölskyldu frænda hans er enn saknað og líklegast að fólkið liggi einhvers staðar grafið í rústum þess sem eitt sinn voru margra hæða fjölbýlishús í einu dýrasta hverfi borgarinnar.

Eftirmálar skjálftans hafa þróast úr sorg heillar þjóðar upp í þjóðarhneyksli. Hamfarirnar afhjúpuðu spillingu og sleifarlag við byggingarframkvæmdir sem ljóst er að nær mörg ár aftur í tímann. Nokkurra ára gömul hús, sem til þess bærir eftirlitsaðilar höfðu gefið vottorð sitt, urðu nánast að dufti við jarðhræringarnar.

Sýrlenskir íbúar tyrknesku borgarinnar Hatay bíða þess að komast gegnum …
Sýrlenskir íbúar tyrknesku borgarinnar Hatay bíða þess að komast gegnum landamærahlið og yfir til Sýrlands í dag. AFP/Yasin Akgul

Þótt Emre nefni verktaka fyrst segir hann ábyrgðina liggja mun víðar. „Verktakinn notar byggingarefni í lágum gæðaflokki. Þá kemur vottunaraðilinn. Hans hendur eru nú roðnar blóði þeirra sem létust. Verktakinn er ekki einn þarna. Þeir sem vottuðu þessa byggingu [Ayşe Mehmet Polat] eru ábyrgir ásamt ríkisstjórninni og ríkisvaldinu. Þeir hefðu aldrei átt að skrifa upp á þessa byggingu.“

Maður tekur myndir af byggingum í rúst í Islahiye, nærri …
Maður tekur myndir af byggingum í rúst í Islahiye, nærri Gaziantep í gær. Jarðskjálftinn í síðustu viku afhjúpaði margra ára, líklega áratuga, hirðuleysi og spillingu við frágang og vottun bygginga í landinu. AFP/Zein Al Rifai

Sem fyrr segir hrundu fjórar byggingar af sex í þessum tiltekna íbúðakjarna sem stóð tilbúinn um aldamótin. Íbúar höfðu hins vegar bent á ýmislegt vafasamt við frágang þeirra löngu fyrir skjálftann. Nú hefur verktakinn sem byggði húsin verið handtekinn ásamt fjölda annarra í þeirri stétt. Hann sver af sér og kveðst ekkert rangt hafa aðhafst, engin ábyrgð varðandi skjálftatjónið hvíli á honum, segir BBC frá.

BBC

The Wall Street Journal

Al Arabiya

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert