Bannaður frá verðlaunahátíðinni á morgun

BAFTA-verðlaunin pússuð fyrir afhendingu. Mynd úr safni.
BAFTA-verðlaunin pússuð fyrir afhendingu. Mynd úr safni. AFP/CARL COURT

Búlgarska blaðamanninum Christo Grozev hefur verið meinað að verða viðstaddur afhendingu bresku kvikmyndaverðlaunanna BAFTA, en verðlaunahátíðin verður haldin annað kvöld.

Grozev, sem á hlutverk í heimildarmyndinni um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, kveður það hafa komið sér að óvörum að honum og fjölskyldu hans hafi verið bannað að mæta á hátíðina.

Að sögn Grozevs er orsökin sú að viðvera hans er talin stofna öryggi fólks í hættu.

„Augnablik eins og þetta sýna þá auknu hættu sem steðjar að sjálfstæðum blaðamönnum um allan heim,“ tísti Grozev um málið á Twitter.

Breska kvikmyndaakademían ber það fyrir sig að öryggi sé ofar öllu í hennar huga, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Eitrað fyrir Navalní með novítsjok

Ekki hefur öllum tengdum myndinni verið meinað að vera við hátíðina. Akademían staðfestir þannig við PA-fréttaveituna að nokkrir framleiðendur verði þar á morgun.

Grozev er þekktur fyrir að hafa leitt rann­sókn­ir miðils­ins Bell­ingcat í mál­efn­um Rúss­lands. Meðal annars hjálpaði hann til við að afhjúpa launráð um að myrða Navalní með taugaeitrinu novítsjok.

Í myndinni er sýnt frá því hvernig Grozev finnur gögn sem benda til þess að launráðin hafi verið brugguð í sjálfri Kremlinni í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld hafa neitað að hafa haft nokkuð með eitrunina að gera.

Christo Grozev hefur einnig leitt rannsóknir Bellingcat í tengslum við …
Christo Grozev hefur einnig leitt rannsóknir Bellingcat í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu. AFP

Fengið fjölda viðvarana um að líf sitt sé í hættu

Grozev kveðst hafa komist að því að honum og syni hans væri ekki lengur boðið eftir að hafa fengið skilaboð frá fréttastofu CNN fyrir nokkrum dögum. Í samtali við breska ríkisútvarpið segir hann þá hafa haft miða á hátíðina, en að boðið hefði verið dregið til baka eftir ráðgjöf frá lögreglunni í Bretlandi.

Þá bætir hann við að á undanförnum vikum hafi hann fengið „fjölda viðvarana frá mismunandi löggæslustofnunum í Evrópu, um að trúverðug sönnunargögn séu fyrir því að líf mitt sé í hættu“.

Fjallað var um það ítarlega á mbl.is fyrr í mánuðinum, að Grozev hefði flúið Vín­ar­borg af ótta við út­send­ara frá Kreml. Hann hefur búið í borginni í nær tuttugu ár.

Í yfirlýsingu segir Lundúnalögreglan að hótanir erlendra ríkja sem beinast að blaðamönnum í Bretlandi séu „raunveruleiki sem við höfum algjörlega áhyggjur af“.

Einnig er bent á að ráðgjöf lögreglu vegna öryggisráðstafana geti þýtt að skipuleggjendur þurfi að taka erfiðar ákvarðanir til að minnka hættuna á hvers kyns öryggisógnum á viðburði þeirra.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert