Segja Rússa fremja glæpi gegn mannkyninu

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, ávarpar öryggisráðstefnuna í Munchen.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, ávarpar öryggisráðstefnuna í Munchen. AFP/Thomas Kienzle

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, sakar Rússa um að fremja glæpi gegn mannkyninu í stríðinu sem þeir heyja í Úkraínu. Segir hún rússneskar hersveitir hafa staðið fyrir útbreiddum og kerfisbundnum árásum gegn óbreyttum borgurum.

Þetta kom fram í máli hennar á öryggisráðstefnunni sem haldin er í Munchen í Þýskalandi.

„Bandaríkin hafa formlega komist að því að Rússland hefur framið glæpi gegn mannkyninu,“ sagði hún er hún ávarpaði þjóðarleiðtogana á ráðstefnunni.

Þetta mun vera í fyrsta skiptið sem að Bandaríkin greina formlega frá því að Rússar hafi framið glæpi gegn mannkyninu í stríðinu.

„Gjörðir þeirra eru árás á sameiginleg gildi okkar og sammannlegt eðli. Rússneskar sveitir hafa ráðist í kerfisbundnar árásir gegn almenningi,“ bætti hún við.

mbl.is